Um málsskjöl

Hæstaréttarmál nr. 610/2007, málsgögn, pdf-skjal: Haestirettur_610_2007
Athugaðu að pdf-skjalið er 120 MB og því býsna þungt.

Um einbeittan brotavilja
Dómkrafa sækjenda málsins var að þeim yrði dæmdur 25% eignarhlutur í óskiptri sameign torfunnar á þeirri forsendu að forveri þeirra, Erlingur Brynjólfsson, kaupir 25 H forn í Ytri-Sólheimum þann 30.1.1905.

Fimm dómarar málsins byggðu dóm sinn á því að ekki væri fullvíst að Sólheimatorfa hefði ætíð verið skráð 100 H í eignarrétti og byggðu ályktun sína á tilvitnun í Jarðatal Johnsens 1847. Jarðatalið vitnar rangt í frumheimild frá árinu 1805. Dómarar fengu frumheimildina skilmerkilega lagða í hendur sér í málsgögnum.

Aðrar heimildir í eignarrétti Ytri-Sólheima votta að torfan er 100 H að fornum hölldnum dýrleika kaupahlutans.

Tóku dómarar Hæstaréttar þann kost að reisa dóminn á villuheimildum og þegja um öll önnur sönnunargögn, til að losna við að samþykkja kröfu stefnenda, um að lúta ákvæðum Stjórnarskrár Íslands um eignarrétt?

Dómurinn í hæstaréttarmálinu nr. 610/2007 gefur vísbendingu um einbeittan brotavilja. Fleira kemur til greina, svo sem vanþekking og daufur skilningur á eignarrétti lands að fornu og nýju. Þá má vera að niðurstaða réttarins hafi ráðist af tímaskorti og flumbrugangi.

Það er vissulega röklegt í dómsorðum að þar er vísað til upptaldra „leyfilegra sönnunargagna“ landskiptalaga. Það eru sölu-/skattmötin 1861 og 1922, auk Johnsens. Hins vegar er undarlegt að þegja um önnur sönnunargögn, sem eru upptalin í eftirfarandi töflu. Er hægt að fría dóminn um undanbrögð?

Hér er tafla, sem sýnir hvaða gögn voru lögð fyrir Hæstarétt um dýrleika Ytri-Sólheima:

Nr. Heimildir Dýrleiki Sundurgreindur dýrleiki Athugasemdir
1 Gíslamáldagar 1570 100
2 Jarðabók 19. maí 1697, afrit 100 89,1 Halldinn dýrl., forn
2 Jarðabók 19. maí 1697, afrit 108 H 40 al Reikn. dýrl.
3 Jarðabók Skúla fógeta 1760 120 H 20 al Brot er tortryggilegt
4 Jarðabók, f. dönsk stjórnvöld 1805 100 100 Halldinn dýrl., forn
4 Jarðabók, f. dönsk stjórnvöld 1805 120 H 2 al Frá Skúla
5 Veðmálaregistur um 1802 til 1930 100 Halldinn dýrl.
6 Sóknarlýsingar 1840 100 Halldinn dýrl.
7 Jarðatal Johnsens 1847 107 6/12 H Villa, sjá nr. 4
7 Jarðatal Johnsens 1847 120 H 20 al Frá Skúla
8 Ný jarðabók fyrir Ísland 1861 100 Halldinn dýrl., forn
8 Ný jarðabók fyrir Ísland 1861 52,1 Nýtt sölu-/skattmat
9 Uppboð Sólheimatorfu 1869 100 100 Halldinn dýrl.
10 Sókn í uppboðsmáli 1871 100 Halldinn dýrl.
 11  Stefna vegna uppboðs 1871  100  Halldinn dýrl.
12 Landsyfirréttardómur 1871 100 Halldinn dýrl.
13 Jarðamatsgögn árið 1918 100 Halldinn dýrl.
14 Rit Eyjólfs á Hvoli um 1940 100 Halldinn dýrl.
15 Úrskurðir Óbyggðanefndar. Mál nr. 6/2003. 100 Halldinn dýrl., forn
15 Úrskurðir Óbyggðanefndar. Mál nr. 6/2003. 120 H 20 al Frá Skúla

Sumar heimildirnar skrá dýrleika með tveimur tölum og eru því tvítaldar hér.

Á sautjándu öld er skráð í jarðabækur kóngsvaldsins bæði “halldinn” og “reiknaður” dýrleiki. Sá “halldni” var í eignaskjölum og sá “reiknaði” var tvítugföld landskuld. Þann 19.5.1697 var landskuld Sólheimatorfu 5 H og 50 al. Bræðurnir úr Sólheimasókn, sýslumennirnir Ólafur og Ísleifur Einarssynir, margfölduðu réttilega með 20 og fengu reiknaðan dýrleika 108 H og 40 al.

Hér er ástæða til að rifja upp fornt tungutak Íslendinga: Bændur og embættismenn “hélldu” jarðir; þ.e. bjuggu á jörðum. Tíund var goldin af “hölldnum” dýrleika. Í klippunni hér úr handritinu AM 463 fol. – er efst skráð: Bændaeign halldinn LL H, þ.e. Bændaeign halldinn 100 H.

Dýrleikinn 120 H og 20 al eða 2 al, er í öllum tilvikum rakinn til jarðabókar Skúla fógeta og hefur aldrei verið notaður til að skilgreina eignina – Sólheimatorfu, eins og kemur raunar fram í ágætri umfjöllun Óbyggðanefndar. Skráningin “2 al” í Jarðabókinni 1805 er dæmigerð fyrir villur við uppskriftir. Hér neðar er sýnt fram á að uppskrift Skúla er rugl. Þess utan voru höfuðból aldrei skráð uppá brot. Hæstiréttur á vítur fyrir að kynna sér það ekki.

Taflan hér að ofan birtir dýrleika í þeim málsgögnum, sem lögð voru í hendur dómara Hæstaréttar. Í orðunum „sundurgreindur dýrleiki“ felst að skil eru gerð á hvernig eignarpartar skiptast á milli eigenda. Það stingur í augu að árið 1697 er sá dýrleiki 89,1 H. Ástæðan er að málsgagnið, sem ég lagði fyrir dóminn er afrit frá nítjándu öld og er á Þjóðskjalasafni.. Mér var þá ókunnugt um að frumrit jarðabókarinnar; handritið AM 463 fol. er varðveitt í Árnastofnun.

Í handritinu AM 463 fol. eru upptaldir eigendur og eignarhlutir Ytri-Sólheima eru samtals 99,6 H. Hvernig er málið vaxið? Upptaldir eigendur og eignarpartar í frumritinu var gert með tilvísunum í löggerninga þ.e. kaupbréf og þesslags. Fleiri dæmi eru, frá sautjándu öld, að dýrleikinn sé skráður 100 H, en upptaldir eignarpartar ýmist tæplega eða rúmlega 100 H. Þær heimildir eru vísitasíur Sólheimakirkju, sem ég hef leitað uppi í handritum biskupa og eru ekki í málsskjölum hæstaréttarmálsins.

Einnig má spyrja: hvers vegna ber afritinu ekki saman við frumritið? Svarið er að við uppskriftir verða mistök. Við afritun AM 463 fol., í nítjándu aldar eftirritið, hefur niður fallið 10 H föðurarfur Ámundasona frá Skógum. Einnig vantar ½ H af eign Magnúsar Kortssonar lögsagnara að Árbæ í Holtum.

Skoðum nánar tölur töflunnar og þá fyrst þær, sem ekki eru 100 H. Um nýtt mat 52,1 H þarf ekki að hafa mörg orð. Klárlega er það ekki forn dýrleiki. Þá villan hjá ritara Skúla með tilbrigðunum árið 1805. Samtals fjórum sinnum. Eftir er þá reiknaði dýrleikinn sýslumanna árið 1697 og villa Johnsens árið 1847. Samtals eru sjö tölur með öðrum dýrleika, en 100 H. Engin þeirra hefur gildi í eignarrétti Sólheimatorfu.

Bók Johnsens er um margt merkt rit, en því miður villum stráð, eins og uppskriftir hafa eðli til. Fyrir fjórum áratugum benti Björn Teitsson magister á að bókin væri ekki nýtileg í sagnfræði nema gætt væri varúðar.

Óbyggðanefnd skrifar af þekkingu um dýrleika jarða og gerir grein fyrir skráningu Skúla og því að í eignarrétti Sólheimatorfu var torfan öll 100 H.

Vítavert er að dómarar Hæstaréttar nota villutilvísun Johnsens í Jarðabókina 1805 til að halla réttu máli. Eftirfarandi klippur sýna að í jarðabókinni 1805 eru Ytri-Sólheimar með Hjáleigunni 100 H. Hæstiréttur notar rangfærslu Johnsens til að byggja dóm sinn á. Í Kastljósi 5.12.2016 kom fram að Markús Sigurbjörnsson var að sýsla með auðæfi sín á þeim tíma, sem honum var ætlað að lesa margnefnd málsgögn.

Tengsl eignarmanna við eldri heimildir og núlifandi afkomendur eru þekkt. Samanlagðir eignarpartar eru 99 H og 120 álnir eða 100 H.

Haustið 2016 fékk Tómas Ísleifsson, sem hér skrifar, í hendur fornar skýrslur sýslumanna landsins, Jarða- og bændatal 1752-1767. Handritið er frumritið, sem uppskriftin, jarðabók Skúla 1760 er skráð eftir. Í jarðatalið skrifa allir sýslumenn sama formála og tilgreina “SPECIFICATIONER”. Í formálum jarðabókar Skúla er vitnað um að eftir fyrrgreindum “SPECIFICATIONUM” sýslumanns, frá því ári, sé bókin skráð.

Skráning Ytri-Sólheima í handriti Skúla er röng og að líkindum gerð af vanþekkingu dansks skrautritara í Kaupmannahöfn.

  • Hvers vegna þegir Hæstiréttur um að í veðmálaregistri hjá “Jörundar” Jóni Guðmundssyni sýslumanni, er heimastaðurinn 92 H 70 al. og Hjáleigan 7 H 50 al eða torfan öll 100 H ? Sjá málsgögn bls. 290-292 eða HÉR
  • Hvers vegna þegir Hæstiréttur um að þ. 20.10.1869 býður Árni Gíslason sýslumaður  torfuna alla upp með dýrleikann 100 H ? Sjá málsgögn bls. 133-135.
  • Hvers vegna þegir Hæstiréttur um að fyrrum sýslumaður Skaftfellinga, Jón Guðmundsson lögmaður, ritstjóri Þjóðólfs og fyrrum þingmaður, skilgreinir í eignarrétti torfuna alla með dýrleikann 100 H ? Sjá málsgögn bls. 138-142 eða HÉR
  • Hvers vegna þegir Hæstiréttur um að Magnús Stephensen, dómari við Landsyfirréttinn, útgefur stefnu þ. 22.5.1871, þar sem uppboð sýslumanns á torfunni er kært? Í stefnunni er torfan öll skilgreind með dýrleikann 100 H. Sjá málsgögn bls. 143-145.
  • Hvers vegna þegir Hæstiréttur um að í dómi Landsyfirréttar 27. nóvember 1871 er torfan öll skráð 100 H ? Sjá málsgögn bls. 151-152.
  • Hvers vegna þegir Hæstiréttur um að í skýrslu jarðamatsnefndar fyrir sölu-/skattmatið 1922 er torfan öll skráð 100 H að fornu ? Sjá málsgögn bls. 269 eða HÉR

Hverjum er ætlandi að bera virðingu fyrir slíkum dómstól?

Myndir af nokkrum málsskjalanna sjást með því að: smella hér

Dómurum Hæstaréttar voru sýnd skjöl, sem sýna að í eignarrétti skrá þrír sýslumenn Skaftfellinga á nítjándu öld  Sólheimatorfu 100 H forn. Á þeim dögum var héraðsdómsvald í höndum sýslumanna.

Í áfrýjunarstefnu til Hæstaréttar 16.11.2007 skrifar Ragnar Aðalsteinsson lögmaður stefnenda m.a. eftirfarandi:

…Áfrýjað er og til að fá hnekkt þeirri lagatúlkun héraðsdóms, að landskiptalög bindi hendur dómstóla á þann veg, að þeim sé óheimilt að byggja efnisdóm um eignarhlut í óskiptu landi og landsnytjum á framkomnum sönnunargögnum, þar sem þeir séu bundnir af formreglum landskiptalaga og formreglurnar gangi framar en efnisleg sönnunargögn um eignarrétt. Þá er og áfrýjað í því skyni að fá hnekkt þeirri ályktun héraðsdóms, að eigandi að óskiptu landi og landsnytjum torfunnar geti aukið eignarhlutdeild sína með því að auka verðmæti úrskipts lands síns, t.d. með aukinni ræktun, og þar með skert eignarhlutdeild sameigenda sinna án heimildar þeirra. Að lokum er áfrýjað í því skyni að fá hnekkt þeirri ályktun héraðsdóms að ákvæði landskiptalaga gangi framar ákvæðum 72. gr. stjórnarskrárinnar um vernd eignarréttar og víki þeirri vernd til hliðar þegar kemur að viðurkenningu á sannaðri 25% eignarhlutdeild áfrýjenda í óskiptu landi og landsnytjum Sólheimatorfunnar…

Röksemdum og tilvísunum Ragnars sópar dómstóllinn burt, með því einu að vitna í tvær villur í bók Johnsens. Ekki má heldur gleymast sú svívirða réttarins að þegja í hel önnur sönnunargögn.

Sölumötin 1861 og 1922 voru gerð til að finna skattstofn og ekki ætlað að vera forsendur í eignarrétti. Það verður að teljast vafalaust að fólk almennt hefur ekki, til þessa dags, haft þekkingu á þeirri lögleysu, sem gerð var með lagasetningunni nr. 46/1941. Glóruleysið í lagasetningunni er tvíþætt – þegar Hæstiréttur er búinn að sveigja lagasetninguna í þrönga lagatúlkun um “leyfileg sönnunargögn” í eignarrétti landskipta. Með öðrum orðum þurfti löggjafarvaldið aðstoð dómsvaldsins til að fullkomna fáviskuna:

  • Í eignarrétti landskipta leyfa ólögin aðeins þrjár tilteknar bækur, sem sönnunargögn.
  • Tvö sönnunargögnin höfðu á útgáfudögum enga tengingu við eignaskjöl.

Í æsku minni vissu allir á Sólheimatorfu að það var eitthvað mikið að lögunum. Það var ljóst að lögin lögðu þar til vitlaust hlutfall. Að hlutfallið væri vitlaust vegna þess að tilskipunin árið 1848 og lögin árið 1915 fyrirskipuðu sölumat ótengt við eignarskjöl datt engum í hug.

Jarðabækur hafa aldrei verið almannaeign, ekki einu sinni hjá bændum á torfum. Fólk hefur allt til þessa dags verið hrekklaust fyrir því að engin vitglóra er í ákvæðum laganna um skiptaforsendur. Menn eru grandalausir að svona lagað geti gerst og rekur í rogastans, þegar málið er útskýrt. Oft tefst skilningur vegna þess að viðmælandi leitar leiða til að sjá röklegt samhengi – sem er ekki fyrir hendi.

Þegar ég hef reifað forsendur lagasetningarinnar við lögmenn og mektarbændur, sem hafa verið tilkallaðir til að hjálpa til við fjölda landskipta, hafa viðmælendur mínir gerst hljóðir. Það er umhugsunarvert að enginn löglærður maður hér á landi virðist hafa bent á að sett voru lög, sem banna í reynd öll sönnunargögn í eignarrétti landskipta, aðrar en þrjár prentaðar bækur.

Þjóðin virðist hafa gengið í blindni fram af bjarginu og glatast, vegna skorts á þekkingu og hugsun um hvað væri í gangi. Vökumenn Íslands – Hæstiréttur, hefur sofið á verðinum.