Sagnfræði – dæmisaga

Grunnatriði eignarréttar eru flestum töm frá unga aldri. Samfélag okkar byggir á fornum leikreglum um eignarhald. Flestir þekkja hugtakið hlutafélag að einhverju marki. Hlutafélög hafa lotið lítt breyttum reglum um aldir. Þegar hlutafélag er stofnað er ákveðið hve mikið hlutafé eigendur leggja fram og þá hve stóra eignarhluti þeir eiga.

Hér er þörf á að vara lesanda við. Margir munu leita að einhverju skiljanlegu samhengi milli eftirfarandi dæmisögu og landskiptalaganna, sem vísað er til í lok greinarinnar. En sú leit er vonlaus, því röklegt, réttlátt, samhengi er ekki fyrir hendi:

Ímyndum okkur að tveir menn hafi stofnað hlutafélag árið 1817, þ.e. fyrir 200 árum, með hlutafé að verðmæti 1000 ríkisdali. Eina hlutverk félagsins var að kaupa jarðnæði. Fyrir stofnféð keyptu eigendur landmikla jörð og skiptu henni í 100 hektara slægjuland og 1000 hektara beitiland. Í dæmi okkar skulum við gera ráð fyrir að hlutafé sé aldrei aukið og að eigendur og arfar þeirra haldi stofnfé óbreyttu til dagsins í dag – hlutabréfin hafi ekki gengið kaupum og sölum. Við skulum einnig gera að því skóna að hlutafé beggja hafi erfst til einbirnis, allt til þessa dags frá kynslóð til kynslóðar.

Nokkrum árum eftir stofnun hlutafélagsins ákveða hluthafar að skipta slægjulandinu á milli sín eftir stofnfjárhlutfalli. Stærri hluthafinn lagði 750 ríkisdali í stofnfé og fær 75 hektara af slægjulandinu og hinn, sem greiddi 250 ríkisdali fær 25 hektara. Báðir reisa bæi og stunda búrekstur, hvor á sínu slægjulandi og nytja óskipta beitilandið með ítölu, eftir eignarhlut.

Árið 1847 gefur Johnsen út jarðatal sitt, en í því er ekki uppgefinn skipting þeirrar jarðar, sem hlutafélagið keypti.

Þann 1. september árið 1848 gaf konungur út tilskipun um nýtt jarðamat á Íslandi. Matinu var ætlað að finna nýjan fasteignagrunn fyrir álagningu skatta. Tildrög tilskipunarinnar voru að Íslendingar töldu að hið forna mat frá árinu 1096 væri víða ekki réttlátur grunnur til skattlagningar. Helsta ástæðan var að margar jarðir höfðu orðið fyrir áföllum vegna uppblásturs, vatnságangs ofl.

Í tilskipun konungs voru nákvæm fyrirmæli til jarðamatsmanna um að meta hverja jörð „til gangbar pris“; þ.e. útmálað var að meta skyldi hverja eign til þess söluverðs, sem matsmönnum þætti líklegt. Slíkt mat var og er alþekkt og tíðkast af fasteignasölum.

Þegar jarðamatsmenn koma á umrædda bæi árið 1849 býr öldruð ekkja með pasturslitlum syni á stærri partinum. Hús eru þar nokkuð hrörleg og sandágangur hefur spillt túnum. Matsmenn meta, eftir bestu samvisku, að jörðin muni seljast fyrir 500 ríkisdali. Matsmenn skoða einnig fjórðungsjörðina. Þar búa eflingshjón á góðum aldri. Jörðin er vel hýst með ræktartúnum og er jörðin, með húsum, metin til sölu á 1000 ríkisdali.

Sölumatið má teljast sanngjarn grunnur til skattlagningar og er löggilt með tilskipun, um Nýja jarðabók fyrir Ísland, þann 1. apríl 1861. Breiðu bökin greiða meiri skatta. Um eignarrétt á óskiptu landi þarf ekki að ræða; þar ræður hlutafélagið.

Árið 1915 setur Alþingi Íslendinga lög nr. 22/1915. Lögin eru, efnislega, endurtekning á tilskipun konungs frá árinu 1848. Jarðir á að meta til skatts: „Hverja fasteign skal meta eins og hún mundi sanngjarnlega seld eftir gæðum hennar“. Í reglugerð eru nánari samhljóða fyrirmæli. Sú breyting er, frá tilskipun konungs, að hús eru sérmetin og land átti að flokka í ræktun og annað land, en því var ekki framfylgt. Þá eiga matsmenn að fá í hendur útfylltar skýrslur frá hreppstjóra með dýrleika matsins frá 1861, matsmönnum til leiðbeiningar.

Jarðamatsmenn meta jarðirnar tvær árið 1918 og telja að 75% eignarhlutinn muni seljast á 2000 krónur og fjórðunginn meta þeir einnig 2000 krónur að söluvirði. Í framhaldi eru jarðirnar skráðar til skatts í Fasteignabókinni 1922; hvor jörð 20 H.

Á þessum árum vissu eigendur jarðanna að skattstofn er eitt – eignarréttur á landi annað. Leikreglur hlutafélagaréttar og almenns eignarréttar tryggðu upphaflegt eignahlutfall eigenda.

Árið 1941 eru sett lög um landskipti; nr. 46/1941. Lauslega orðað eru fyrirmæli laganna um landskipti eftirfarandi:

Í fyrsta lagi samkvæmt sölumatinu 1861, sé þess kostur. Í öðru lagi samkvæmt Johnsen og ef hvorug bókin gefi aðskilið hlutfall skal nota Fasteignabókina 1922. Í fjórða lagi mega eigendur semja um annað, ef það hefur staðið í 20 ár.

Auka umhugsunarefni: Hvenær hefur ríkið vald til að hindra tvo lögráða einstaklinga að semja, sín á milli, um það sem báðir vilja?

Í því dæmi, sem hér hefur verið rakið ber samkvæmt lögunum að skipta óskiptu 1000 hekturunum á þann veg að sá sem á 75% hlutafjárins fær 333 hektara og sá sem á 25% hlutafjár fær 667 hektara. Ef eigandi meirihluta hlutafjár er svo lukkulegur að aðgreint mat finnst ekki frá 1861, fær hann útdeilt samkvæmt 1922 matinu. Þá hlýtur hann 500 hektara, til jafns við fjórðungseiganda hlutabréfa.

Höfundur þesarar ritsmíðar var ekki fæddur þegar lög nr. 46/1941 voru sett. Höfundur firrir sig því allri ábyrgð á rakaleysu í fyrrgreindri dæmisögu.

Hér er ekki sett upp óraunhæft dæmi. Sölumötin útgefin 1861 og 1922 og undarleg tilvísun landskiptalaga virka í stöku tilvikum svona öfgafullt. Nærtækast er að Sólheimahjáleiga í Mýrdal er að fornu mati 7,33% af Sólheimatorfu. Þannig skilgreind var jörðin seld á átjándu og nítjándu öld. Samkvæmt sölumatinu 1861 er Hjáleigan 23% torfunnar og eftir sölumatinu 1922 er Hjáleigan 15,5% af torfunni. Á heimasíðunni eru upptalin fleiri dæmi: Óformlegt eignarnám

Í meira en 70 ár hefur Hæstiréttur varið þessi lög, sem voru annað tveggja sett af vanþekkingu eða ófyrirleitni.

Þó Hæstiréttur sé illa að sér í sögu jarðeigna og förlist þá sýn í eignarrétti er ég nokkuð viss um að rétturinn mundi sjá ljósið, ef sagan um fyrrgreint hlutafélag væri sönn og málið bærist þar á borð. Hæstiréttur er handgenginn lögum um hlutafélög. Ég trúi dómstólnum til að skammta þar rétt: Eigandi 75% hlutafjár fengi 750 hektara af óskipta landinu og hinn hluthafinn fengi eignarhlut sinn – 250 hektara.

Til baka; þ.e. upphafssíða