B. Löggerningar og jarðabækur

Morgunblaðið, grein 18. feb. 2017: 170218_loggerningar

Greinin er annars vegar um þúsund ára sögu eignarréttar byggðum á þinglýstum löggerningum. Hins vegar er rakið hlutverk jarðabóka fyrir skattheimtu.

 

Í greininni Glámskyggn hæstaréttardómari, sem birtist í blaðinu 3.2.2017 fjalla ég um dóm í hæstaréttarmálinu nr. 610/2007. Ég gagnrýni dóminn og lög nr. 46/1941 um landskipti. Hér og í næstu grein dreg ég annars vegar fram þætti í þúsund ára sögu eignarréttar á Íslandi og hins vegar sögu jarðabóka, sem eru verkfæri skattheimtu.

Íslenskir eignamenn hafa í þúsund ár tryggt eignarhald að lögum með þinglýsingum. Fyrir daga skráðra löggerninga (samninga um eignir) var eignarhald sannað með vitnisburði þingvitna. Þegar fyrrgreind lög voru sett, voru liðnar átta aldir frá skráningu löggerningsins Reykholtsmáldaga, sem er elsta varðveitta frumskjal á íslenskri tungu.

Frá þeim dögum hafa eignamenn tryggt eignarhald á jarðeign með rituðum, vottuðum löggerningi og þinglýsingu hans. Til tuttugustu aldar var þinglýsing lifandi orð. Fullvaxnir áttu, samkvæmt Grágás og Jónsbók að koma á hreppsþing og telja til tíundar eignir að viðlögðum eiði við bók.

Jarðabækur voru, hins vegar, gerðar fyrir skattheimtu; kirkjur og kóng, en ekki til að sanna eignarhald. Tíundarlög voru sett 1096 og dýrleiki á jarðir.Varðveittar eru jarðabækur kóngs- og kirknaeigna frá sextándu öld. Að boði Rentukammers gerðu sýslumenn merka jarðabók 1695-1697; handritið AM 463 fol. Verkið var unnið eftir nákvæmum fyrirmælum á þriggja hreppa þingi um allt land. Kóngsvaldið lét skrá eignarhald á allri jarðeign og: „producere hvad adkomst og Rettighed de hafver til hvis Jordegods.“ Lauslega útlagt: „hvernig menn væru að eignum sínum komnir.“ Útlegging á okkar dögum er: „eignaheimildir.“ Sérhver eignarmaður átti að mæta til þings með eignaskjöl í hans vörslu. Í handritinu er skjöl dagsett og rakin um kynslóðir. Handritið er vottað af þingvitnum þ.e. þinglýst. Jarðabók Árna og Páls 1702-1714, má einnig teljast þinglýst skjal. Jarðabókin ÍBR 22 8vo frá um 1720 er uppskrift. Eins er skrautritið Jarðabók Skúla fógeta 1760 skrifstofuverk; uppskrift, gerð í Kaupmannahöfn á árunum 1760-1769. Hvorugt verkið hefur réttargildi á við þinglýstan löggerning.

Í greininni Glámskyggn hæstaréttardómari gat ég þess að ég hef í höndum myndir af frumheimildinni að jarðabók Skúla; skýrslur sýslumanna. Handbragð sýslumanna er svipað og formálar eru samhljóða að undanskyldu sýslunafninu. Allir skrifa þeir undir skýrslurnar með innsigli. Greinileg skrifstofuverk og ekki vottuð. Á árunum 1804-1807 var skráð jarðabók á dönsku af embættismönnum Rentukammers. Verkið hefur sagnfræðilegt heimildagildi, en má teljast léttvægt í eignarrétti. Í Þjóðarbókhlöðu eru varðveittar jarðaskýrslur sýslumanna frá 1844-1845 og hafa skráningarnafnið ÍB 22 fol. Einnig þær eru skrifstofuverk, undirrituð af sýslumönnum – án innsiglis, sem ég tel raunar litlu skipta.

Jarðatal Johnsens 1847 er uppskrift á öllum jarðabókum undanfarandi tveggja alda. Í formála höfundar kemur fram að verkið vinnur hann frá nýári til vertíðarloka 1847. Á hverri síðu bókarinnar vitnar hann í heimildir. Þær heimildir, sem ég hef hér nefnt og eru tilvísanir í handrit eru mun fleiri, en síður bókarinnar. Verkið er uppskrift handrita, geldur fyrir knappan uppskriftartíma og er ekki löggerningur. Björns Teitsson magister orðaði það svo árið 1970 í bók sinni Eignarhald og ábúð á jörðum í Suður-Þingeyjarsýslu 1703−1930: „Rétt er að geta þess hér, að þetta jarðatal var helzt til flausturslega unnið á sinni tíð, og eru margar prentvillur og aðrar villur í bókinni. Því er henni varlega treystandi.“ Bókin er eitt af þremur leyfilegum sönnunargögnum laga nr. 46/1941, – svo traustur er sá grundvöllur.