Hvað er málið?

Þessi vefsíða á sér „primus motor“, þ.e. ástæðu. Sú ástæða eru landskiptalög nr. 46/1941 og útlegging dómstóla á lögunum. Í lögunum eru fyrirmæli um að í eignarrétti landskipta eigi að gilda þrjár prentaðar bækur, til sönnunar í eignarrétti. Ekki er tekið fram að önnur sönnunargögn séu óheimil, en dómstólar hafa fegnir stokkið í það skjól að ekki sé heimilt að meta önnur sönnunargögn um eignarhald. Í reynd eru því þrjú „leyfileg sönnunargögn“ í eignarrétti landskipta. Þvert á ætlan vankunnandi þingmanna hafa ólögin efnt til ófriðar um allt land í yfir sjötíu ár.

Umfjöllunarefnið er uppskipti á sameignarlandi í séreignarlandsvæði. Víða um land eru jarðartorfur, sem eru að uppruna frá miðöldum. Jarðartorfa – torfa, er afmarkað landsvæði tveggja eða fleiri jarða. Sérhver jörð á torfunni hefur- á, afmarkaðar skákar til slægna og annarra nytja. Annað land torfu, hvort heldur er láglendi eða fjalllendi, er sameignarland torfunnar, einkum nýtt til beitar.

Í upphafi myndast torfa, þegar einbýlislandi er skipt upp í tvö býli eða fleiri og hluti landsins er nytjaður sameiginlega. Hins vegar myndast ekki torfa ef einni jörð er skipt að fullu og öllu í tvær jarðir. Ekkert stendur í vegi fyrir því að einbýlisjörð í dag verði á morgun, hvort heldur, torfa eða tvær jarðir.

Flestar torfur landsins má rekja til miðalda. Oft höfuðból með hjáleigum. Í upphafi í eigu eins aðila, sem býr á heimajörð og mælir út leiguskákar, þar sem hann setur leiguliða. Hjáleigan var skilgreind í jarðarhundruðum og þar með hversu stór hluti torfu hún var. Leigan – landskuldin –  og beitarréttur í sameign var reiknuð í hlutfalli við hin leigðu jarðarhundruð.

Á svæðinu frá Markarfljóti til Hornafjarðar var algengt að byggðin væri í þorpi á heimastaðnum. Allur gangur var á eignarhaldi og oft var meirihluti ábúenda leiguliðar. Sumir eigendur voru fjarbúandi stóreignamenn.

Flestum torfum var skipt í eignarparta fyrir árið 1861. Eignarpartar voru skilgreindir að fornu mati og þannig hægt að reikna hlut hvers eiganda samkvæmt eignaskjölum – löggerningum. Ætíð var skilgreint að hlutur í óskiptri sameign væri í sama hlutfalli og hin keyptu og seldu jarðarhundruð voru af torfunni allri. Löggernigar, sem eru gerðir þegar eign er skipt eru ætíð sá grundvöllur, sem eignarréttur verður að byggja á.

Landskipti samkvæmt eignarbréfum
Með tilkomu gaddavírs um 1900 hófst öld landskipta. Ég hef ekki enn rannsakað landskiptagögn á landsvísu og þekki aðeins stöku dæmi. Flest eignabréf um jarðeignir skilgreina hlut jarðar í torfu að fornu mati. Þær skilgreiningar voru fram á tuttugustu öld notaðar við veðsetningar. Flestir bændur héldu átta hundruð ára hefð með að nota forna matið í allri ráðstöfun eigna sinna. Hvort sem málið var ítala, hlunnindi, landskuld, sala eða landskipti.

Flestir voru nógu rökvísir og heiðarlegir til að nota löggerninga að fornu mati, einnig í eignarrétti landskipta. Því er það svo að fjöldanum af torfum var á síðustu öld skipt að fornu mati, þótt hlutföll skattmatanna hafi verið í aðra veru. Ég þekki slík dæmi af því að þau eru nálægt mér. Þannig stóðu menn að verki bæði í Reynishverfi og í Pétursey í Mýrdal.

Ég er næsta viss um að á mörgum torfum voru aðeins tveir mögulegir skiptagrunnar, vegna þess að sundurdeildur dýrleiki var ekki í jarðabók fyrr en 1922. Samkvæmt lögunum frá 1941 skal þá skipta eignum samkvæmt slumpmatinu 1922. Hinn kosturinn var að aðilar kæmu með þinglýst eignarbréf og bæru saman, hvort upp gengi í eignina alla. Þannig er að verki staðið í öllum öðrum eignarrétti.

Segjum að allir, nema einn, virði eignarbréfin. Þessi eini krefst þess að land hans tvöfaldist í krafti slumpmatsins 1922. Með ólögum efnir löggjafinn til ófriðar. Nákvæmlega það gerðist á Ytri-Sólheimum árið 1960, þegar Einar ráðunautur gerði kröfu um að nota skattmatið 1922.

Á flestum torfum kusu eigendur að hlíta hlutfalli uppgefnu í löggerningum og oft eru engin önnur gögn fyrir hendi um eignarhluti. Við getum haft misjafna skoðun á hve vel eða illa góðir menn og vondir eru að eignum sínum komnir. Samt! Það er engin önnur leið fær, en að virða þinglýstan löggerning eða að fá honum hnekkt með dómi. Sú hnekking er ekki lögmæt ef hún einskorðast við eignarrétt landskipta ólaganna frá árinu 1941.

Skattmöt 1861 og 1922
Árið 1861 og aftur árið 1922 voru lögfest skattmöt, sem ekki áttu að vera í neinum tengslum við löggerninga og þá við hið forna mat. Hlutföll milli jarða á torfum eru þar af leiðandi önnur, en samkvæmt löggerningum. Raunar er ekki heldur samhengi á milli þessara skattmata og átti ekki að vera, samkvæmt fyrirmælunum fyrir matið 1922. Í bæði skiptin átti að meta hverja jörð fyrir sig eins og matsmenn héldu að hún mundi seljast.

Árangurinn er eins og til var stofnað, hlutfall á milli jarða á hverri torfu í skattmötunum 1861 og 1922 er ekki í hlutfalli forna matsins. Og þar með ekki í sama hlutfalli og löggerningar þeir, sem voru gerðir þegar viðkomandi torfu var skipt.

Glundroða hlutfallsins er auðveldast að sjá í töflunni yfir þær 60 torfur, sem upp er gefinn dýrleiki í fjórum heimildum: Skattmötin 1861 og 1922, forna matið hjá Johnsen og í Jarðabókinni 1861. Óreiða á hlutfalli er æpandi. Skoðun sýnir að forkastanlegt er að lögleiða slumpsölumötin 1861 og 1922, sem tvö af þremur alls „leyfilegum sönnunargögnum“ í eignarrétti landskipta.

Ég veit ekki til þess að ámóta og taflan um 60 torfur hafi fyrr verið gerð eða stærri og götóttari taflan með 194 torfur. Tölvutækni auðveldar verkið. Sennilega stóðu Alþingismenn árið 1941 í þeirri meiningu að hlutfall skattmatanna væri eins og í  eignaskjölum. Þingmenn hafa svikist um að skoða fyrirmæli skattmatanna í tilskipun konungs 1.9.1848 og lög nr. 22 frá 3. nóvember 1915.

Breytilegur eignarpartur?
Með því að nota skattmötin 1861 og 1922 fyrirskipa gildandi lög um landskipti  flutning á eignum, af handahófi milli nágranna, án bóta. Hér tek ég þann kost að vitna í greinargerð þingmanna með ágætum landskiptalögum, sem sett voru árið 1927. Þar kemur fram að skattmötin 1861 og 1922 eiga ekkert erindi í eignarrétt landskipta:

Eftir ákvæðum laganna (3. gr.) á að miða landskifti  við stærð jarðar eða jarðarparts eftir jarðamati. Nú er það vitanlegt, að hlutföll jarðamats á hinum einstöku býlum sameignarjarða hafa breyst meira og minna við síðasta jarðamat og munu breytast við endurmat framvegis, vegna mismunandi umbóta, ræktunar eða niðurníðslu á túni eða annari sjereign býlanna, og eru þá og verða jarðamatshlutföll önnur en eignahlutföll sameignarlandsins. Það er því augljóst að landskifti eftir jarðamati mundu í ýmsum tilfellum verða hraparlega ranglát.

Til þess að útiloka slíkt ranglæti og alla óvissu um það, á hverju landskifti eiga að byggjast, vill nefndin breyta ákvæðum frumvarpsins um þetta og gera þau ákveðnari og að miklum mun víðtækari. Eins og áður er fram tekið, segir í 2. gr. frv., að skifti skuli “miðuð við lögmæt eignahlutföll þess lands og landsnytja, sem eigi hefir verið áður skift”.

Í sumum tilfellum mundu þessi eignahlutföll ekki vera auðsæ þegar í stað, t.d. ef skifta á landi jarðar, sem metin er 60 hundruð í jarðamatinu frá 1861, en þegar síðasta jarðamat var undirbúið, er jörðin lengi búin að vera í eign þriggja manna og 3 býli með skiftum túnum, sáðreitum og engjum, eignahlutföll eru þá ½, ¼ og ¼ eða 10/20, 5/20 og 5/20. Við síðasta jarðamat hafa svo þessi býli verið metin, auk húsa, 22 þús., 10 þús. og 8 þúsund kr., eða 11/20, 5/20 og 4/20 hluta úr heildinni. Hjer hafa þá jarðamatshlutföllin breyst til hækkunar 1. býli og til lækkunar 3. býli.

Slík breyting á hlutföllum jarðamats er venjulega bein afleiðing af mismunandi ræktun eða umbótum á skifta landinu, og eru þá alveg óviðkomandi eignahlutföllum óskifta landsins; þau eru hin sömu eftir sem áður, og fara skiftin þá eftir þeim. Brtt. nefndarinnar við 2. gr. c. fyrri málsgr. á að útiloka misskilning í þessu efni.

Sýnilega höfðu þingmenn árið 1927 skilning á að jarðamat sé skattaforsenda, en hafi ekkert með eignahlutföll að gera. Ég fæ ekki séð annað, en afnám laganna frá 1927, sé annað tveggja, algert skilningsleysi eða ófyrirleitni þingmanna árið 1941.

Formgerð lögmætis laga
Hvergi hef ég séð að meint lögmæti landskiptalaga frá 1941, sé varið með tilvísunum um að „leyfilegu sönnunargögnin“ séu löggilt skjöl. Alþingi flækti ekki málin með slíkum bollaleggingum árið 1941. Ég ætla þinginu að hafa vitað af löggildingum skattmatanna og talið það nóg.

Tilurð bókar Johnsens er slík að enginn vegur er að yfir hana hafi verið dreginn hjúpur löggildis. Bókin er uppskrift á ótal uppskriftum.

Um skattmötin tvö er það að segja að bæði voru þau á sinni tíð löggilt, sem grunnur til skattheimtu. Miklar umræður og skrif voru frá 1845 til 1861 eða lengur um hinn nýja skattgrunn. Hvergi er þar einu orði vikið að eignarrétti. Ég fullyrði að á þeim dögum hugkvæmdist engum slík firra.

Í reglugerð, frá 1916, vegna skattmatsins 1922, eru fyrirmæli um að löggilding jarðabókarinnar 1861 skuli afnumin, þegar hin nýja fasteignabók verði löggilt árið 1920. Útgáfa bókarinnar dróst um tvö ár. Mér hefur ekki unnist tími til að ganga úr skugga um að við þetta hafi verið staðið árið 1922.

Fyrirmælin eru staðfesting á að skattmötunum var eingöngu ætlað að gilda í skattarétti. Þá er niðurlægjandi fyrir löggjafann að aðeins eitt af „leyfilegu sönnunargögnunum“ hefur á sér yfirvarp lögmætis.

Ólögin frá 1941
Villu Alþingis árið 1941 er hægt að flokka þríþætt:

  • Í fyrsta lagi að telja upp „leyfileg sönnunargögn“ í eignarrétti landskipta.
  • Í öðru lagi að afnema löggerninga, sem sönnunargögn í eignarrétti landskipta.
  • Í þriðja lagi að sleppa skástu prentuðu heimildinni; forna matinu 1861, sem „leyfilegu sönnunargagni“.

Seinheppni hins háa Alþingis er með eindæmum og skömm að hafa ekki fyrr flett ofanaf vitleysunni. Bent á: gildi löggerninga í eignarrétti og hversu fráleitt er að tiltaka  „leyfileg sönnunargögn“.

Forna matið 1861 og Johnsen eru uppskriftir á uppskriftum úr eignabréfum – löggerningum og því oft í réttu hlutfalli við eignir. Forna matið 1861 er að því leyti skárra, en Johnsen að aðgreindur dýrleiki er þar á fleiri torfum. Skattmötin 1861 og 1922, sem byggja á fyrirskipuðu slumpi á söluverðmæti er greinilega valin af fávísi þingmanna. Þægilegt þótti að binda “leyfileg sönnunargögn” við þrjár prentaðar bækur.

Búnaðarfrömuðunum á þingi er hægt að fyrirgefa daufan skilning á eignarrétti, en hvernig gat Alþingi allt verið svo skini skroppið að afnema löggerninga í eignarrétti? Þingmenn voru þá fimmtíu, af þeim voru níu lögfræðingar og einn (Ólafur Thors) hafði stundað laganám. Þeim er ekki ætlandi að hafa vitað hvað þeir voru að gera.

Hér var efnt til lagasmíðar þar sem leitað var eftir, eða öllu heldur hlítt, einbeittum tillögum sérfræðinga í búvísindum, en ekki staldrað við og leitað álits sérfræðinga í eignarrétti. Það er þeim mun undarlegra að fimmti partur þingmanna mátti kallast menntaður þar til. En þeir slepptu því að hugsa og enginn sýnist hafa haft döngun til að fletta upp fyrirmælum ríkisvaldsins fyrir skattbókunum 1861 og 1922. Varla hefðu þeir sett lögin ef þeir hefðu vitað að fyrirmælin hafa að engu hlutfall á milli eignarbréfa.

Meðferð málsins í landbúnaðarnefnd er áminning um að vart er að treysta að nefndir þingsins kryfji mál til mergjar. Í nefndinni sátu bæði lögfræðingur og guðfræðingur ásamt bændum og búfræðingum.

Lagasmíðin öll ber vott um vankunnáttu þingmanna. Þingið forsómaði að skoða grundvöll sinna laga og samdi ólög. Hér tilfæri ég forn spakmæli: “Með lögum skal land byggja, en ólögum eyða”.

Hið þrískipta ríkisvald
Allvíða á vefsíðunni bendi ég á að lög nr. 46/1941 eru afglöp löggjafarvaldsins og ég fordæmi sinnuleysi Hæstaréttar – dómsvaldsins um lögin. Þriðji armur ríkisvaldsins er ekki frír af lögunum. Í meira en sjötíu ár hafa starfað í landinu landskiptanefndir á vegum framkvæmdavaldsins.

Framkvæmdavaldinu ber að lúta vilja löggjafar- og dómsvalds. Ég hef enga hugmynd um hversu oft landskiptanefndir hafa aðstoðað við landskipti, þar sem aðilar hafa verið sviptir eignum bótalaust. Það ég best veit hafa nefndirnar talið sér skylt að hlíta ákvæðum landskiptalaga. Engin rannsókn hefur farið fram á þessari hlið máls, ég þekki aðeins stök dæmi.

Brot Hæstaréttar
Brot Hæstaréttar rista dýpra, en Alþingis. Réttinum er ætlað að hafa yfirsýn á rétt lög. Að hafa sýn á að ekki séu þverbrestir í löggjöf og kveða upp dóma, sem síðan eru metnir til fordæmis. Lengi hafa hæstaréttardómarar beitt lögum um „leyfileg sönnunargögn“ í eignarrétti landskipta. Ætla má að þeir hafi meðalgreind eða meir. Þeir læra og skrifa um grundvöll eignarréttar og dæma þar um fjölda dóma.

Að sjálfsögðu hafa þeir oft séð að ólögmætt er að leyfa! aðeins þrjú sönnunargögn i eignarrétti. Þeir hafa þagað um ólögin og raunar fegnir stokkið í það skjól að hlíta ákvæðum lögleysunnar. Blind hlýðni, við margnefnda lögleysu, sparar þeim vinnu.

Ég hef ekki leitað uppi þá svardaga, sem dómari verður að lýsa yfir við embættistöku. Í fornum lögum var dómurum ætlað að bera sannleikanum vitni. Þögn dómara um ólögin; að benda löggjafanum ekki á að lögin þurfi að afnema, eru ámælisverð.