C. Skattmat og eignarréttur

Morgunblaðið, grein 2. mars 2017:170302_skattmat

Breytt var um skattkerfi árið 1861 án tengingar við hina fornu tíund. Í eignarrétti landskipta eru lög, sem valda bótalausri eignaupptöku.

 

Nýtt skattmat var útgefið 1861. Matið var óháð fornu mati jarða og óformlegri kauphöll jarðahundraða. Hlutfall á milli jarða á jarðatorfum var í flestum tilvikum annað í nýja matinu, heldur en í því forna. Eignabréf voru þá öll að fornu. Nýja matið átti eingöngu að nota til skattheimtu og vel má vera að skattkerfisbreytingin hafi verið réttlát. Hins vegar gagnrýni ég blindu nítjándu aldar manna að hafa ekki sýn á að ágjarnir menn gætu skilgreint hlut sinn í sameign að nýju mati og eygt með því von um að komast yfir stærri bita, en þeir höfðu fengið með þinglýstum löggerningi.

Í hönd fór dagrenning nýrrar tækni, sem breytti lífi þjóðar, þar á meðal gaddavír, sem gerði kleyft að skipta sameignarlandi. Þjóðin horfði til bjartrar framtíðar og treysti að nývirki, einsog nýja skattmatið, væri betra en það forna. Bjartsýni setti glýju fyrir sjónir og enginn virðist hafa áttað sig á að nýja matið var ekki í samræmi við löggerninga; að það ylli þjófnaði á jarðeign í 87% tilvika (Sjá grein í Mbl. 18.2.2017), væri það notað í eignarrétti landskipta.

Ný landskiptalög voru sett árið 1913. Við lagasetninguna höfðu menn misst fótanna á gljánni: „Skiftin skulu miðast við stærð jarðanna eða jarðarpartanna eftir jarðamati.“ Menn settu traust sitt á þær tvær prentuðu jarðabækur, sem til voru. Hér er stefnubreyting í eignarrétti, þótt ólíklegt sé að úrskurðað hafi verið þvert á löggerninga (kaupbréf ofl.), sem tilgreindu dýrleika úr torfu.

Haldið var áfram að þinglýsa löggerninga tímabilið 1861-1941, ýmist að fornu- eða nýju mati. Jarðabækur voru eftir sem áður fyrir skattheimtu. Löggerningar að fornu mati hafa að líkindum gilt í eignarrétti landskipta, þótt misræmið á nýja- og forna matinu 1861 væri upplagt til að efna til ófriðar. Varla munu lögin 1913 hafa kollvarpað gildi löggerninga við landskipti.

Dæmi um afleiðingar kerfisbreytingarinnar eru tvær sölur á Sólheimahjáleigu í Mýrdal: Í erfðafjárskýrslu 2.1.1885 er jörðin skráð að fornu mati og þá 7,33% af Sólheimatorfu. Jörðina kaupir Þorvaldur Björnsson í Núpakoti. Þorvaldur selur Hjáleiguna 15.7.1915 til tveggja mektarmanna í Reykjavík. Í kaupbréfinu er jörðin skilgreind 12,2 H að nýju mati eða 23,4% torfunnar.

Það er ekki óhugsandi að pyngjur höfðingjanna hafi opnast betur við það að gefið er í skyn að jörðin sé stór partur Sólheimatorfu. Það er dágott að kaupa 7,33% í eign og selja sem 23,4%. Engin lög bönnuðu slíka gerninga, en þeir gátu verið siðlausir og bitnað á öðrum eigendum torfunnar og eða mektarmönnunum.

Ég er engu að síður handviss um að obbinn af jarðasölu á tímabilinu, sem gerður var að nýju mati var gert í grandaleysi. Stjórnvaldið var blint. Sýslumenn vildu þinglýsa löggerninga að nýju mati og skrá í bækur embættanna. Það var þægilegra og flottara að fletta upp í einni nýrri bók, en að leita heimilda í handritum liðinna alda.

Talið er að Þorvaldur sé fyrirmyndin að Birni á Leirum í Paradísarheimt Laxnes.

Nýtt fasteignamat var útgefið 1922 og staðfest með reglugerð. Hlutföll milli jarðaparta á torfum eru þar önnur en í bæði forna og nýja matinu 1861. Slíkt rugl er kannski forsvaranlegt við skattlagningu, en vítavert í eignarrétti.

Ákvæði laganna frá 1913 um að skipta eigi landi „eftir jarðamati“ leiddi til þess að ný landskiptalög voru sett árið 1927. Pétur Þórðarson flutningsmaður frumvarpsins gerði, þ. 6.4.1927 á Alþingi, grein fyrir umfjöllun landbúnaðarnefndar og mælti m.a.:

En það er vitanlegt, að hlutföll jarðamats á hinum einstöku býlum sameignarjarða hefir breyst meira eða minna við síðasta jarðamat. Það er því augljóst, og hefir líka komið fyrir síðan 1922, að skifti eftir slíku jarðamati geta verið mjög ranglát.“

Ný lög voru sett og fyrirmæli um skiptagrunn eru: „Skiptin skulu vera til fullrar eignar og ætíð miðuð við viðurkennd og á lögmætan hátt staðfest eignahlutföll lands og landsnytja, er skipta á….“ og síðar: „ – Nú er ágreiningur um eignahlutföll óskipts lands eða landsnytja og næst ekki samkomulag. Verður þá eigi úr því skorið nema með dómi.“

Ekki eru upp talin þau sönnunargögn, sem nota má. Í þess stað er vísað til alls sem reynst getur lögmæt sönnun. Íslendingar hafa um aldir vottað og þinglýst löggerninga, svo sem kaupbréf að jörðum og jarðapörtum. Þau skjöl voru og eru langmikilvægasta sönnunargagn í eignarrétti jarðeigna. Í fyrri grein færði ég rök fyrir því að jarðabækur væru fáar eða engar jafngildar lögmætum löggerningum í eignarrétti.

Eftir setningu laganna 1927 fóru í hönd krepputímar, en tæknin fleytti bændum fram til aukinnar ræktunar lands. Landskipti á sameign var tímanna tákn. Til hjálpar voru kallaðir kunnáttumenn, starfsmenn Búnaðarfélags Íslands. Fjögurra er getið, sem komu að landskiptum, víða. Þeir höfðu menntun og víðtæka reynslu til að vinna gott starf, vera óhlutdrægir, réttsýnir úrskurðarmenn við að meta og mæla land, en enga burði í eignarrétti. Tveir þeirra, Páll Zóphóníasson og Steingrímur Steinþórsson, voru jafnframt þingmenn og lögðu fram frumvarp að lögum um landskipti.