Framtíð Íslendinga; hér er nýr hlekkur á stjórnmál dagsins         (Skrifað 1.11.2019)

Vefsíðan er mestanpart um afglöp löggjafans í eignarrétti landskipta og hér eru einnig lögð fram gögn sem sýna afglöp Hæstaréttar Íslands. Lagasmíð Alþingis vorið 1941 ber merki fákunnáttu og þess að skoða í engu á hverju þeir byggðu.

Ólög Alþingis vorið 1941 eru með þeim endemum að af 60 jarðartorfum á Íslandi, sem raktar verða samkvæmt forsendum Alþingis er aðeins ein torfa með sama hlutfall og er í eignabréfum fyrir árið 1861. Það er tvíbýlistorfan Stóri-Ás og Augastaðir í Hálsasveit.

Sumarið 2017 safnaði höfundur vefsins fundargerðum landskiptanefnda frá tuttugustu öld. Landskiptanefndir hafa þá lagaskyldu að leggja til eignahlutfall í eignarrétti landskipta, sem iðulega brýtur í bága við eignaskjöl. Lögin leyfa þó að landeigendur komi sér saman um skiptahlutfall. Fjölmörg landskipti voru því gerð í góðu samkomulagi.

Eftir skoðun á fundargerðunum liggur fyrir að athuga aðkomu Hæstaréttar Íslands að málaflokknum.

Á vefsíðunni eru lögð fram sönnunargögn um:

Á vefsíðunni eru sönnunargögn og söguleg dæmisaga, sem sýna að fyrrgreind lög eru gerræði við eignarrétt. Sönnunargögn er taflan 194 torfur og hluti hennar, 60 torfur, sem sýna “leyfilegu sönnunargögn” ríkisvaldsins. Á flipanum Jarðamál eru krækjur í tvö af þremur “leyfilegu sönnunargögnunum”.

Jarðamatsmenn, sem gerðu sölumöt fyrir skattbækurnar 1861 og 1922 fóru, flestir, að fyrirmælum ríkisvaldsins: Mötin voru ótengd eignarbréfum á óskiptri sameign í jarðatorfu. Sama á við þegar fasteignasali verðleggur endurbætta eða niðurnídda íbúð í blokk – söluverðið ræðst ekki af upphaflegum eignarhlut í blokkinni. Landskiptalög ganga í berhögg við þessar staðreyndir.

Ef skattmötin – þ.e. sölumötin – 1861 og 1922 eru notuð í eignarrétti eykst og minnkar hlutur jarðar í sameign, rakalaust, út í bláinn. 

Hér er fullyrðing um að lagasetning Alþingis hafi verið afglöp. Er hægt að véfengja þau orð?

Hæstiréttur sniðgengur frumheimild í eignarrétti, sem er lögð í hendur dómara og byggir dóm á uppskrift, sem vitnar rangt í frumheimild. Auk þess sniðgengur dómurinn fjölda samhljóða heimilda um eignina. Þar á meðal er Landsyfirréttardómur frá 27. nóvember 1871. Í umfjöllun Hæstaréttar er ekki eitt einu orði á þessi framlögðu sönnunargögn. Framlögðu gögnin sýna að í eignarrétti Ytri-Sólheima hefur dýrleiki torfunnar verið um aldir 100 hundruð forn. – Með öðrum orðum misfór rétturinn stórlega með framlögð sönnunargögn.

Hér er frumheimildin, sem dómstóllinn skoðaði ekki.

Dómsmálið var höfðað til að fá staðfestingu á að Erlingur Brynjólfsson hafi keypt 25% af Ytri-Sólheimum þ. 30.1.1905 og að sú eign væri í höndum höfundar og ábyrgðarmanns vefsíðunnar. Dómkrafan var gerð með tilvísun í eignarréttarákvæði Stjórnarskrár Íslands og braut í bága við ólögin frá árinu 1941. Dómnum bar að dæma að lögum – lögum um landskipti og lögum um eignarrétt. Dómstóllinn vitnaði í villuheimildir og þagði um aðrar.

Hér eru lögð fram sönnunargögn og rök um að margnefnd landskiptalög setja, í eignarrétt landskipta, fyrirmæli, sem brjóta í bága við grundvöll eignarréttar.

Hvernig má það vera að dómarar réttarins, sem eiga að hafa yfirsýn á grundvöll laga, virðast leita allra leiða til að dæma samkvæmt „leyfilegum sönnunargögnum“ og öðru ekki? Í dómsorðum er þögn um trúverðugar samhljóða heimildir í eignarrétti landskipta á Ytri-Sólheimum.
Hér eru upplýsingar: Um einbeittan brotavilja

Þegir Hæstiréttur og hlýðir ólögunum, vegna þess að réttinn skortir siðferðisþrek til að verja Stjórnarskrárbundin mannréttindi? Blind hlýðni um að hlíta „leyfilegum sönnunargögnum” auðveldar dómurum starfið. Dugar þá réttinum að fletta upp í þremur bókum?

Fegnir samþykkja dómararnir ákvæði ólaganna um „leyfileg sönnunargögn“ og forðast að nefna önnur. Sú þögn er æpandi. Er réttmætt að skilja umfjöllun réttarins svo að hann sé ber að einbeittum brotavilja og undanbrögðum um að virða Stjórnarskrána? Hvernig getur íslenskt samfélag treyst einstaklingum, sem dæma skulu um örlög manna og bregðast svo hrapalega traustinu?

Hér er fullyrt að dómur réttarins í eignarrétti Ytri-Sólheima hafi verið afglöp. Er hægt að véfengja þau orð?

Dáðleysi Hæstaréttar með ólögin í sjö áratugi er með endemum. Ég hef goldið fyrir rangan dóm Hæstaréttar Íslands. Hefur íslenskt ríkisvald siðferðilegar og lagalegar skyldur að bæta tjónið?