Endurupptökudómstóll, hrd. nr. 610/2007

I. Beiðni um endurupptöku hrd. nr. 610/2007 – greinargerð

II. Málsgögn vegna endurupptöku hrd. 610/2007, til Endurupptökudómstóls

Stór dómsmál eru oftast flókin og torskilin. Þetta dómsmál er stórt í sniðum. Hæstiréttur sá ástæðu til að láta 5 dómara sitja í dómi í hæstaréttarmálinu nr. 610/2007. Dómkrafa mín braut í bága við lög um landskipti, nr. 46/1941. Ástæða þess að ég fór fram með slíka dómkröfu er að nýgreind lög brjóta í bága við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Málið spannar sögu Íslands um aldir. Í hæstaréttarmálinu nr. 610/2007 voru fram lagðar margar heimildir.

Í hæstaréttarmálinu gerði ég þá dómkröfu að rétturinn úrskurðaði að mér bæri réttur til 25% hluta af óskiptri sameign Ytri-Sólheima og byggði ég kröfu mína á ríkulegum heimildum. Ólögin frá 1941 telja hins vegar upp „leyfileg sönnunargögn“ um eign í óskiptri sameign. Upptalning í lagatexta á leyfilegum sönnunargögnum gerir lagatextann ólögmætan. Gildir einu hvort lögin er í eignarrétti eða refsirétti. Engin dæmi veit ég þess að löggjafar veraldar hafi talið sig hafa visku til að telja upp leyfileg sönnunargögn í morðmáli; t. d. að hnífur sé hugsanlegt sönnunargagn, en ekki byssa.

Í eignarrétti Ytri-Sólheima leyfa ólögin aðeins tvö sönnunargögn um skiptahlutfall. Dómarar Hæstaréttar beygðu sig fyrir sönnunargögnum um að eign mín væri 25 hundruð forn í óskiptri sameign. Til að sleppa við að úrskurða í bága við ólögin frá 1941 tóku þeir þann kost að byggja dóm sinn á tveimur heimildum; tveimur stoðum, sem skrá Ytri-Sólheima ekki 100 hundruð forn. Ákvörðun réttarins var lögformlega og röklega rétt, en dómurunum yfirsást að báðar stoðirnar eru villuheimildir.

Krafa mín til Endurupptökudómstóls er byggð á yndislega einföldum grunni. Það mál sem hér er háð er einfalt og auðskilið – Ég geri kröfu til að Endurupptökudómstóll dæmi mér rétt til að fá hæstaréttarmálið nr. 610/2007 endurflutt í Hæstarétti Íslands. Kröfuna byggi ég á því að:

  1. Jarðatal Johnsens 1847, vísar rangt í frumheimild; Jarðabók 1806.
  2. Jarðabók Skúla 1760 vísar rangt í frumheimild; Jarða- og bændatal 1753.

Til að sjá tilvísanirnar tvær og frumheimildirnar tvær þarf að bera saman í heimildaskjalinu:

  • Blaðsíða 41; þ.e. mynd úr Jarðatali Johnsens 1847 og blaðsíður 37-38; þ.e. myndir úr Jarðabók 1806.
  • Blaðsíður 25-26, þ.e. myndir úr Jarðabók Skúla 1760 og blaðsíður 23-24; þ.e. myndir úr Jarða- og bændatali 1753.

Önnur gögn þessa máls eru að sjálfsögðu dómur Hæstaréttar, þá lagði ég blaðagreinar mínar um landskipti, í hendur dómara Endurupptökudóms. Í bréfi Endurupptökudóms segir að gagnaðilum hæstaréttarmálsins verði eftir 31. mars 2021, send gögn þessa máls. Eftir ítrekaða fyrirspurn fékk ég þ. 9. júní þær upplýsingar að: “. . . Ekki hefur verið óskað eftir viðbrögðum gagnaðila hæstaréttarmálsins. Með kveðju . . .”

Ég er tortrygginn og ósáttur við þá töf, sem orðin er á að Endurupptökudómur dómtaki mál mitt. Í greinargerð til Endurupptökudóms vísa ég skýrt til að bera þurfi saman tvær heimildir og aðrar tvær. Samtals eru heimildir þessar 7 blaðsíður og eru fljótlesin misræmin. Dómurum var úthlutað þessu máli í febrúar. Hvernig getur það vafist fyrir dómurunum í 4 mánuði að taka málið til dóms og senda gagnaðilum hæstaréttarmálsins málsgögn mín?