>Á undirsíðum flipans eru myndir af þremur handritum frá miðri sautjándu öld:
Þá er hér krækja í tilskipun Rentukammers til Skúla landfógeta 1.5. 1751: Rentekammerets Instruction
Á vefsíðunni er aðgangur að Jarðabók Skúla fógeta 1760 og að nokkrum heimildum henni tengdri. Jarðabókina lét Skúli gera í samráði við Rentukammer í Höfn. Skúli var mikilhæfur maður og í toppi valdakerfis danska ríkisins.
Fráleitt er að hann hafi sjálfur skrifað allt stórvirkið; yfir 30 bindi. Þótt afritið af bók Árna Magnússonar sé með hendi hans. Hann var raunar listaskrifari, en í Kaupmannahöfn var nóg af slíkum handverksmönnum og honum brýnna að troða tröppur danska ríkisins landi sínu til framdráttar. Skrifarana var ekki kostnaðarsamt að undirhalda, hvorki íslenska eða danska.
Ég álít raunar ólíklegt að svo fávís Íslendingur hafi komið til Kaupmannahafnar á átjándu öld að hann hefði skrifað dýrleika Sólheima „1 H H og 20 al“. Mig undrar mest að dugnaðarforkurinn Jón Johnsen, reyndur sýslumaður frá Íslandi, skuli hafa skrifað vitleysuna upp, þrátt fyrir öll önnur gögn sem hann hafði um 100 H kaupahlutinn. Meira að segja í handritinu ÍB 22 fol, sem er nú í Þjóðarbókhlöðu er dýrleiki jarðarinnar skráður 100 H þann 15.3.1844, sem er samtímaheimild Johnsens og hann vitnar til. Skrásetjarinn, Magnús Stephensen sýslumaður á Höfðabrekku, hafði þá stýrt Dyrhólaþingi í tuttugu ár. Hvernig gat Johnsen verið svona blindur?
Ég veit ekki um fleiri villur í Jarðabók Skúla 1760 og hef engar áætlanir um að leita þar villna um aðrar jarðir landsins.
Dómur Hæstaréttar; nr. 610/2007 er hvatinn að þessari vefsíðu. Úrskurður réttarins byggði m.a. á skráningu jarðarinnar Ytri-Sólheimar í bók Skúla. Allir sem skyn bera á fornan dýrleika jarða hefðu átt að sjá að skráningin í bók hans var torkennileg. Hér eru lögð fram gögn sem sýna að skráningin í bók Skúla er ekki samkvæmt frumheimildinni; Jarða- og bændatalinu. Fyrst klippa af bls. 59 í bændatalinu, um að verið sé að skrá „Specification“ jarða árið 1753 og dýrleiki höfuðbólsins. Til hægri, bls. 70, undirskrift Þorsteins Bjarnasonar á Ketilsstöðum. Myndir af skjölunum er auðveldast að stækka á snertiskjá.
Þá klippur úr uppskriftinni; Jarðabók Skúla. Á bls. 71 er tilvísun í að skrá eigi „Specification“ jarða sýslunnar samkvæmt skráningum Þorsteins Bjarnasonar árið 1753. Til hægri sést á bls. 73, að ekki er skráð samkvæmt því sem fyrir er lagt í skýrslu Þorsteins Bjarnasonar – sjá hér ofar.
Jarðabók Skúla vitnar einnig til skýrslna sýslumanna um tukthústolla árið 1759. Í jarðabókinni eru aðeins skráð landskuld og kúgildi jarða úr skýrslunum 1759. Í skýrslunum sjálfum er hins vegar ákaflega traust skráning á dýrleika kaupahluta Sólheima gerð á Dyrhólaþingi. Kirkjuhluti jarða var sýslumanni óviðkomandi, eða svo töldu þeir flestir. Blöðin eru gulnuð og textinn ekki auðlesinn, en það sem skiptir máli sést. Tekið er fram að skýrslan sé gerð samkvæmt Konungsbréfi 20.3.1759.
Lýður sýslumaður skráir dýrleika jarða og eru Ytri-Sólheimar skráðir 100 H bændaeign. Sýslumaður dagsetur skýrsluna 10.11.1759 með undirskrift og innsigli. Þá votta átta þingsvitni skýrsluna. Heimildir eru til um vottana. Sjá eftirfarandi klippur:
Hér er í neðstu klippunni til vinstri skráð: “20¨Sólheimar ytre Beign 100 H…”. Það er: númer 20. Sólheimar ytri bændaeign 100 H, þ.e. kaupahlutinn. Kirkjueignin 100 H er hér ekki færð til bókar.