Jarðabækur

Hér er fyrst upptalning og slóð á helstu jarðabækur landsins í tímaröð:

  1. Jarðabók 1695/96 eða handritið AM 463 fol. Gerð á þingstöðum af sýslumönnum, varðveitt í Árnastofnun. Dýrleiki og landskuld jarða á prenti í bókinni The Old Icelandic Land Registers, doktorsverk Björns Lárussonar. Krækja
  2.  Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns 1702-1714, útgefin á prenti. Krækja
  3.  Jarðabók frá um 1720; handritið ÍBR 22 8vo, varðveitt  á Landsbókasafni. Krækja
  4.  Jarða- og bændatal 1752-1767, handrit á Þjóðskjalasafni.
  5.  Jarðabók Skúla fógeta 1760, Norðuramt og Suðuramt,  handrit á Þjóðskjalasafni.
  6. Jarðabók 1804 til 1807,  handrit á Þjóðskjalasafni. Krækja
  7.  Handritið ÍB 22 fol. frá 1844-1845, varðveitt  á Landsbókasafni. Líklega heimild forna mats Nýrrar jarðabókar 1861.
  8. Jarðatal Johnsens 1847. Krækja
  9. Ný jarðabók fyrir Ísland 1861. Krækja
  10. Fasteignabók 1922. Krækja

Allar jarðabækurnar voru gerðar til að henda reiður á skattheimtu.

Ríkisvald á öllum tímum lætur sig varða hvernig menn eru að eignum sínum komnir. Samfella í eignaskráningu á Íslandi frá setningu tíundar árið 1096 til miðrar nítjándu aldar tryggðu eignarrétt að lögum. Eignabréf um dýrleika jarðaparta að fornu hölldnu mati voru kjölfesta hinnar óformlegu kauphallar, sem stóð óbreytt í nær átta hundruð ár. Þar var heimavöllur eigna- og valdamanna Íslands.

Árið 1848 gaf konungur út tilskipun um að nýtt jarðamat. Á vefsíðunni er tilskipunin, hér. Fyrirmælin voru að hverja jörð skyldi meta samkvæmt líklegu sölumati. Matinu var eingöngu ætlað að gagnast til að leggja á fasteignaskatta. Ef tvær hálflendur voru misvel setnar bar matsmönnum að meta þær misdýrar til sölu og skattlagningar. Þær voru ekki jafnsöluvænlegar.  Í tilskipun konungs er hvergi minnst á hlutfall milli eignarparta og raunar ekki minnst á eignarparta eða hlutdeild yfirhöfuð.

Þegar menn tóku að nota nýja slumpsölumatið í eignarrétti, svo sem við sölu á jarðapörtum varð rof í eignarrétti landsins. Ekki lá lengur ljóst fyrir hvernig menn voru að eignum sínum komnir.

Gott dæmi um ábyrgt ríkisvald er bréf Rentukammers þ. 11. maí 1695 til Christian Múllers amtmanns á Bessastöðum. Kóngsvaldið gerði kröfu til að eignamenn væru að lögum að eignum sínum komnir: “…at producere hvad adkomst og Rettighed de hafver til hvis Jordegods…”.

  • Afleiðing slumpsölumatsins í jarðabókinni 1861 var réttlátari skattlagning á fasteignum, eins og vonir stóðu til.
  • Önnur afleiðing slumpsölumatsins í jarðabókinni 1861 er þokuhugsun þjóðar um eignarrétt landskipta nú í meira en hundrað ár. Skattmatið ótengt við forna skattkerfið er ótækt í eignarrétti.

Skrifað 19.6.2018 – meira síðar!