Forsendur landskiptalaga

Krækjur:     Ný jarðabók fyrir Ísland 1861         Jarðatal Johnsens 1847       Þriðja “leyfilega heimildin”: Fasteignabók_1922

Hér, neðar, eru tenglar á tvær töflur, sem eru skráðar með því að steypa saman “leyfilegu sönnunargögnunum” í eignarrétti landskipta. Gögnin eru: Ný jarðabók fyrir Ísland 1861, Jarðatal Johnsens 1847 og Fasteignabók 1922.  Í töflunni með 60 torfum eru þær torfur, sem upp er gefinn dýrleiki í öllum heimildunum. Taflan með 194 torfum inniheldur einnig fyrrtaldar 60 og auk þess 134 torfur, sem eru með slitróttar skráningar.

Hvers vegna eru núverandi landskiptalög ranglát: Hvað er málið?

Töflur: Forna mat, skattmöt 1861 og 1922 – 60 torfur             Forna mat, skattmöt 1861 og 1922 – 194 torfur

„Leyfileg sönnunargögn“
Hér er umfjöllunarefnið samanburður á þremur jarðabókum, sem eru grundvöllur laga nr. 46/1941. Lögin leyfa þrjú sönnunargögn í eignarrétti landskipta: Nýtt skattmat Jarðabókar 1861, Jarðatal Johnsens 1847 og Fasteignabókina 1922.

Allar heimildirnar voru gerðar til að gagnast við skattheimtu. Forna mat Jarðabókarinnar 1861 og forna mat Jarðatals Johnsens 1847, eru uppskriftir úr eldri skattskrám. Allar eldri skrárnar eru að uppruna, uppskriftir á dýrleika jarða, samkvæmt eignaskjölum.

Ég ætla ekki að kveða upp palladóma, um lögmæti þess að slumpa áætluðu söluverði á jarðeignir, til að meta þær til skatts. Þær ákvarðanir voru teknar af mörgum, góðum, sonum þessa lands, um 1850 og aftur árið 1915. Þeim gekk skattheimta ein til. Hinsvegar eru það ólög að nota skattmöt í stað löggerninga í eignarrétti landskipta. Það er tilræði við grundvöll eignarréttar.

Landskiptalögin eru tvíþætt klúður: Í fyrsta lagi að byggja ekki á löggerningum eins og í öðrum eignarrétti – og í öðru lagi að byggja á ósamhljóða og ólögmætum heimildum, þar sem ein er uppskrift á uppskriftum og hinar tvær eru geðþóttaákvarðanir. Ég á við bók Johnsens og skattmötin 1861 og 1922.

Stöldrum við og skoðum hugtakið ósamhljóða jarðamat: Í því felst að hlutdeild jarðar í sameignarlandi breytist frá einu mati til annars. Það er hliðstætt við að maður, sem kaupir 20% hlut í skipi komist að því á næsta fundi sameignarfélagsins að eignarpartur hans sé skráður 12%.

Hversu ósamhljóða eru leyfilegu heimildirnar? Það sést í töflunum: 60 torfur og 194 torfur. Töflurnar sýna að aðeins ein torfa af 60 hefur sama hlutfall í öllum “leyfilegu sönnunargögnunum”. Það er jörðin Stóri Ás í Hálsasveit ásamt afbýlinu Augastöðum.

Langt er síðan ég sá að hlutir jarða á torfum, voru ekki eins í öllum jarðabókum. Samt kemur mér á óvart að niðurlæging löggjafans sé svo djúp að grundvöllur laganna, um samræmi, stenst aðeins í 2% tilvika. Ég á von á að fleiri verði hissa!

Í Jarðatali Johnsens 1847 og jarðabókinni 1861 er forn dýrleiki jarða. Enginn eðlismunur er á þessum heimildum. Báðar eru þær uppskriftir úr eldri uppskriftum. Ég fæ ekki betur séð, en að í báðum tilvikum sé bygggt á sömu heimildum. Mestanpart skýrslum sýslumanna; handritinu ÍB 22 fol.,  frá árunum 1844-45. Johnsen sýnist vitna í handritið í formála og raunar á nánast hverri síðu bókar sinnar.

Sölumötin – skattmötin, 1861 og 1922 eru af öðrum toga: Jarðamatið fyrir jarðabókina 1861 var gert á árunum 1849-50. Alþingi var ósátt við matið. Um þá framvindu kýs ég að vitna til skrifa, Guðmundar J. Guðmundssonar sagnfræðings, í ársskýrslu Fasteignamats ríkisins frá árinu 2000:

… matsmenn höfðu lagt mismunandi skilning í það hvað væri „gangbar pris“ en það hugtak var lagt til grundvallar matinu. Þannig væri hróplegt ósamræmi á jarðamati milli einstakra sýslna þótt þokkalegt samræmi væri í mati innan þeirra. Lagði Alþingi til að bætt yrði úr verstu ágöllunum og matið síðan löggilt. Féllst danska stjórnin á þetta og var skipuð þriggja manna nefnd sem í voru þeir Jón Guðmundsson ritstjóri, Vilhjálmur Finsen og Jón Pétursson yfirdómari til að fara yfir málið og mun hún hafa lokið störfum 1853.

Lög númer 22 árið 1915 settu hliðstæð fyrirmæli um að meta líklegt söluverðmæti jarða. Fasteignamatið árið 1922 var gert að þeim fyrirmælum. Fasteignabókin 1922 var útgefin til að grundvalla skattheimtu. Fimm árum síðar benti Pétur Þórðarson  alþingismaður Mýramanna á að sölumatið mætti ekki nota í eignarrétti landskipta. Hann var forgöngumaður um að sett voru ágæt lög um landskipti árið 1927.

Þrátt fyrir það voru sett ný lög um landskipti árið 1941. Lögin fyrirskipa að forna mat Johnsens skuli vera lögmætt sönnunargagn í eignarrétti landskipta, en forna matið 1861 ekki. Uppruni uppskrifta beggja bókanna og samræmi í meðfylgjandi töflu tel ég hins vegar nægilegt til að gera ekki upp á milli bókanna. Vitað er að miklar villur eru í bók Johnsens og ekki er að lítt athuguðu máli ástæða til að gera ráð fyrir að heimildagildi forna matsins 1861 sé lakara.

Ég hef skilning á að menn, sem glæptust til að setja lög í eignarrétti, um að afnema lögmæti löggerninga, skyldu velja Johnsen, en ekki forna matið 1861. Bók Johnsens vitnar í sífellu til fjölda heimilda, allt til sautjándu aldar. Þá eru fyrstu fyrirmæli laganna að fyrirskipa nýja matið 1861 og það hefði verið vandræðalegt að vísa í öðru lagi til forna matsins í dálknum við hliðina, með allt öðru hlutfalli. Það er svo annað mál að aðgreindur dýrleiki að fornu mati 1861 er á 134 torfum af 194 torfum töflunnar. Hjá Johnsen eru 70 torfur af margnefndum 194, með aðgreindan dýrleika.

Af Jóni Guðmundssyni ritstjóra og Landsyfirréttardómi
Jón Guðmundsson (1807-1875) var sýslumaður Skaftfellinga þegar nýja jarðamatið var unnið á árunum 1849-50. Hann var raunar formaður yfirmats sýslunnar árið 1850. Á þjóðfundinum 1851 var hann ásamt nafna sínum Sigurðssyni í forystu. Hér fyrr kemur fram í tilvitnun að hann var í nefnd Alþingis um jarðamatið árið 1853. Næstu árin gaf hann út þjóðmálablaðið Þjóðólf og stundaði einnig málflutningsstörf við Landsyfirrétt. Meðal annars vann hann mál í Landsyfirrétti um Sólheimatorfu þ. 27. nóvember 1871, þar sem torfan er skilgreind 100 H að fornu mati. Hiklaust má fullyrða að Jón var, á sinni tíð, einn helsti sérfræðingur þjóðarinnar um dýrleika jarða.

Heimildirnar fjórar
Hér geri ég grein fyrir flokkun minni á fjórum heimildum, sem eru í þeim þremur bókum, sem eru “leyfileg sönnunargögn” í eignarrétti landskipta. Ég vek athygli á að jarðabókin 1861 er með tvær gjörólíkar heimildir: Forna matið er sótt í eignaskjöl aftur í aldir og hlaut ekki náð hjá klömbrurum gildandi landskiptaólaga , en nýja matið er sölumat frá árinu 1849. Þriðja og fjórða heimild eru Jarðatal Johnsens 1847 og Fasteignabókin 1922, eins og fyrr hefur komið fram.

Taflan með 194 torfum er uppskrift á dýrleika jarða, sem eru í Jarðatali Johnsens 1847, Nýrri Jarðabók fyrir Ísland 1861 og Fasteignabók 1922. Gengið er út frá jarðabókinni 1861 um flokkun jarða í torfur. Fjöldi torfa í bókinni er 725.

Ekki eru færðar þar til bókar allar torfur landsins. Sundurdeildur dýrleiki að fornu- og nýju mati 1861 er uppgefinn á 183 torfum. Johnsen gefur auk þess upp sundurdeildan dýrleika á 7 torfum, sem eru: Hoffell og Vindborð í Nesjum, Ystabæli undir Eyjafjöllum, Ytri-Hóll í Landeyjum, Leirá í Leirársveit, Þórdísarstaðir í Eyrarsveit  og Stóri Skógur í Dölum. Þá tek ég mér þann fræðimannsrétt að bæta við 4 torfum, sem eru í Mýrdal. Réttinn tek ég mér á grundvelli mikilla heimilda og að ég er staðkunnugur. Torfurnar eru: Reynishverfi, Dalajarðir, Dyrhólahverfi og Sólheimatorfa.

Í Jarðabókinni 1861 er fjöldi torfa, þar sem ekki kemur fram aðgreindur dýrleiki ábýla – jarða. Nærtækt dæmi er Pétursey í Mýrdal. Aðeins uppgefið árið 1861 að fornu 60 H og að nýju 49,1 H. Alla tíð var þar margbýlt og 1922 eru býlin 4.

Í töflunni verða með þessu móti 194 torfur, með 564 jörðum eða tæplega þremur ábýlum að meðaltali. Dýrleiki er skráður í fjóra dálka: Samkvæmt Johnsen, að fornu- og nýju 1861 og loks eftir skattmatinu 1922. Þá þarf aftur fjóra dálka til að reikna hlutaskipti samkvæmt heimildunum.

Ég stend í þeirrri meiningu að taflan sýni að þessi tilteknu „leyfileg sönnunargögn“ í eignarrétti landskipta séu fáránlegur grunnur laga. Svo eru einnig „leyfileg sönnunargögn“ yfirhöfuð ólögmætur grundvöllur laga.

Ég geri nokkurn reka að því að flokka torfurnar og festi þær niðurstöður hér á blað. Þær sýna að beiting landskiptalaga flytur eignir af handahófi frá einum til annars.

Ég stend í þeirri meiningu að eftirfarani texti um flokkun á torfum, sé flókinn og leiðinlegur. Svo það er kannski best fyrir þig að sleppa því að lesa hann og kíkja á: Óformlegt eignarnám, hér neðar á síðunni.

Fljótlegast er að renna augum yfir töflu með 58 torfum, sem eru sá hluti fyrrnefndra 194 torfa, sem eru með skráðan dýrleika á fjóra vegu: Að fornu eftir Johnsen og 1861, einnig samkvæmt skattmötunum 1861 og 1922.

Við úrvinnslu á skráningum í heimildum hef ég reiknað í viðbót við hlutaskipti, hve mikið jörð missir eða bætir við í hlutfalli af eigninni að fornu mati. Sem dæmi má taka 16 H heimajörð og 4 H afbýli. Afbýlið er þá 1/5 torfunnar. Ef hlutföll eiga að haldast og heimajörð er metin 32 H í nýrra mati árið 1861 ætti afbýlið að metast 8 H.

Gefum okkur að heimajörðin sé að sölumati 24 H og afbýlið 16 H.  Nú ber svo við að afbýlið er 2/5 torfunnar og hefur stækkað 100% – tvöfaldað land sitt. Heimajörðin var 80% torfunnar og er metin niður í 60%. Jörðin hefur misst 1/4 af sínu landi eða 25%. Dæmafátt er að hlutfall milli jarða á torfu að fornu og nýju árið 1861 haldist.

Út yfir tekur að sjaldan er óbrenglað hlutfall á milli sölumatanna – skattmatana 1861 og 1922. Raunar er ég hér of stóryrtur: Það er eðlilegt að hlutfallið á milli söluvirðis tveggja eigna árið 1922 sé ekki það sama og það var árið 1861. Hins vegar er ótækt að beita breyttu hlutfalli í eignarrétti landskipta.

Einföld jafna til að reikna breyttan hlut jarðar er:

Tap eða viðbót = ( hlutfall að eldra – hlutfall að yngra ) / hlutfall að eldra.

Summa forna mats hjá Johnsen og Jarðabók 1861
Á 8 torfum er ekki gefinn heildardýrleiki hjá Johnsen og eru númer torfanna nr. 50, 71, 72, 158, 162, 164, 181 og 191. Til að hægt sé að bera saman forna matið hjá Johnsen og í jarðabókinni 1861 verður sundurdeildur dýrleiki að vera í báðum bókunum. Svo er ekki um þessar 8 og einnig fyrrtaldar 7 torfur. Báðir flokkarnir dragast frá 194 torfum og eru þá hægt að bera saman 179 torfur, um heildardýrleika að fornu mati hjá Johnsen og jarðabókinni 1861.

Dýrleika torfa í uppskrift Johnsens og í uppskriftinni að fornu 1861 ber saman á 134 torfum af 179. Það eru 75%. Sýnilega hefur eitthvað skolast til frá löggerningum yfir í uppskriftir skattsins. Önnur hvor eða báðar eru vitlausar í 25% tilvika.

Ekki er skráður sundurdeildur dýrleiki að fornu mati hjá Johnsen á 119 torfum. Af hinum 75 sundurdeildu eru 7 ekki í jarðabókinni 1861. Þá eru eftir 68, sem eru í báðum bókunum. Fjöldi torfa með skráðan sundurdeildan dýrleika hjá Johnsen og fornu mati 1861 er 68, eins og fyrr er sagt. Af þeim eru 53 torfur samhljóða eða 85%.

Dýrleika uppskriftanna ber ekki saman á torfum númer: 4, 7, 11, 19, 70, 80, 100, 126 og 139. Önnur hvor heimildin eða báðar eru ekki í samræmi við eignaskjöl; löggerninga aldanna. Fyrsta torfan; nr. 4, Dalajarðir í Mýrdal er rangt skráð hjá Johnsen. Í handritinu AM 463 fol. kemur fram að bænhúsið í Dal á 2 H í Fjósum, Neðradal og Kaldrananesi svo og 4 H í Stóradal, sem þá var ekki skiptur í Breiðuhlíð og heimastað. Samtals eru Dalajarðir 60 H forn og þannig skráðar að fornu 1861. Raunar rötuðu guðspartar  jarða sjaldan í eignaskjöl. Sú fjárgæsla var í máldögum og vísitasíum.

Skattmat 1861
Þótt sex áratugir séu á milli skattmatsins 1861 og 1922 voru fyrirmæli til matsmanna þau sömu. Meta átti hverja jörð til söluverðs, eins og matsmenn teldu að hún mundi seljast ef auglýst væri. Engin leyfi eða fyrirmæli voru um að hlutfall á milli jarða á torfu ætti eða mætti haldast. Bersýnilegt er að í flestum tilvikum hafa matsmenn ekki talið sér heimilt að halda óbreyttu hlutfalli samkvæmt eignaskjölum. Hverja jörð skyldi meta eftir  „gangbar pris“ .  Helst má ætla að samviskusömum matsmönnum hafi þótt að þeim væri óheimilt að meta torfu í heilu lagi og skipta matinu eftirá samkvæmt eignaskjölum. – Fyrirmælin voru að meta hverja jörð til söluverðs – ekki flokk jarða.

Heilt yfir er matsmönnum ekki ætlandi annað, en að þeir hafi hlítt fyrirmælum um „gangbar pris“  af trúmennsku. Hverjar urðu afleiðingarnar á tvíbýlisjörð, sem setin var að hálfu af efnafólki á besta aldri að hálfu og heilsulausum bónda í kröggum á hinum helmingnum? Er líklegt að á báðum bæjum hafi verið búið af sömu rausn? Var rétt að slumpa á sama „gangbar pris“ á helmingana? Samt var eign beggja í óskiptri sameign jöfn.

Engu að síður er ljóst að í tilvikum hafa matsmenn sælst til að láta forna hlutfallið haldast. Í skattmatinu 1861 er hlutfall forna matsins áfram á 24 torfum af 187 alls. Það gefur að um 13% jarða eru skráðar að nýju mati í takt við eignaskjöl, þess tíma. Hlutur tvíbýlistorfa er 19 af fyrrgreindum 24 torfum.

Yfirgnæfandi eða á 87% torfa, er hver jörð metin út í bláinn og hlutföll allt önnur, en voru í eignaskjölum. Á um 56 torfum af 187 er tap eða gróði, sem hlutfall af eigin jörð 40% eða meira.

Skattmat 1922
Til að reikna hliðstæðar tölur um eignatilfærslur frá fornu- til skattmatsins 1922 þarf fyrst að finna fjölda torfa, sem eru með aðgreindann dýrleika að fornu 1861 og einnig með aðgreindann dýrleika árið 1922. Þær torfur eru 141. Af þeim torfum eru 19 með sama hlutfall. Þar sýnast um 13% jarða fá rétta hlutdeild á við eignaskjöl. Einnig hér er forvitnilegt að skoða á hve mörgum torfum landskiptalögin stofni til eignanáms uppá 40% eða meir. Sú talning gefur 56 torfur.

Bæði skattmötin
Áður hefur komið fram að torfa nr. 85, Stóri Ás í Hálsasveit hefur sama dýrleika í öllum „leyfilegu sönnunargögnunum“. Samræmið skánar dálítið ef skoðað er hve margar torfur halda sama hlutfalli að fornu- og nýju mati 1861 og síðan 1922. Þá bætast við: Nr. 36, Marteinstunga og nr. 39, Bjóla í Holtum, nr. 49, Sandlækur í Gnúpverjahrepp, nr. 138, Breið í Skagafirði og nr. 180, Svínaskáli í Reyðarfirði. Hlutfallið verður 6/141 eða 4% torfa eru að réttu hlutfalli í báðum skattmötunum.

Óformlegt eignarnám
Flokkunum og útleggingum lýk ég með því að flokka meira úr torfunum 141, sem upp er gefinn dýrleiki að fornu og skattmötunum 1861 og 1922. Með því að leita eftir torfum, þar sem jörð tapar 40% af landi sínu eða hremmir 40% viðbót frá nágranna lenda 23 torfur í úrtakinu. Torfurnar eru eftirfarandi:

5. Dyrhólar í Mýrdal, 7. Stóraborg, 10. Ásólfsskáli, 13. Voðmúlastaðir, 20. Fíflholt-eystra, 25. Hlíðarendi og 29. Kollabær stóri í Rangárþingi; 53. Kolsholt í Árnesþingi, 72. Ytri-Hólmur Akranesi, 101. Stóri-Langidalur Skógaströnd, 105. Staður á Reykjanesi, 107. Saurbær á Rauðasandi, 115. Suðureyri Súgandafirði, 117. Hóll í Bolungavík, 130. Hof og 132. Guðrúnarstaðir í Húnaþingi; 142. Efstaland Eyjafirði, 148. Svalbarð á Svalbarðsströnd, 151. Bustarfell og 153. Ljótsstaðir í Vopnafirði; 165. Sandbrekka á Héraði, 168. Hallbjarnarstaðir í Skriðdal og 190. Berunes í Berufirði.

Við upptalninguna sé ég ástæðu til að nefna að Dyrhólar eru ekki með fornu mati í heimildunum. Skráning Dyrhóla allt frá miðöldum er flókin. Ég á skrif um Dyrhóla, sem ég mun birta síðar. Hér bendi ég aðeins á að Dyrhólar voru á miðöldum 60 H, helmingur á Austurhúsum og hinn parturinn á Vesturhúsum Dyrhóla. Á sautjándu öld voru þversagnir í skráningunni leystar með því að Austurhús voru skráð 60 H og Vesturhús fengu nýjan dýrleika 24 H. Sú skráning hljómar raunar enn undarlegar. Skráning Dyrhóla allra 24 H, er villa frá miðri átjándu öld.

Vangaveltur í lokin
Þegar margnefnd tafla er skoðuð í ljósi „leyfðra sönnunargagna“ stingur í augu hve hlutir jarða í torfum eru breytilegir frá einum tíma til annars. Það er niðurlæging fyrir Alþingi að hafa sett lög, sem leyfa þrjár heimildir í eignarrétti landskipta og heimildunum ber nær aldrei saman.

Allar fyrrgreindar vangaveltur um tölur eru þreytandi bæði fyrir þann sem hér skrifar og þig sem lest. Inntakið í samanburðinum á heimildunum þremur má draga saman með eftirfarandi: „Leyfilegu sönnunargögnunum“ þremur ber nær aldrei saman. Til að sjá að svo sé er fljótlegast að skoða töflu um 60 torfur. Þar er skráður dýrleiki úr öllum “leyfilegu” heimildunum og raunar einnig forna matið 1861 á 53 torfum.

Niðurstaðan er eins og vænta má ef haft er í huga að við skattmötin 1861 og 1922 voru fyrirmæli til matsmanna að slumpa á „gangbar pris“ á hverja jörð. Þannig var að orði komist í tilskipun konungs fyrir skattmatið 1861. Ekki átti að skoða torfu í heild. Það er annað mál að nokkrar nefndir hafa brotið fyrirmælin. Ekki er tilviljun þegar hlutfall skattmats er það sama og forna matsins.

Glundroðinn á hlutfalli milli jarða er nær alger. Nálægt 13% torfa halda sama hlutfalli milli jarða og er í hinu forna mati. Á flestum torfum landsins breytist hlutfallið eins og til var stofnað. Það má kallast lögmætt í skattarétti, en er án vafa lögleysa í eignarrétti landskipta.