Huldujörð Sólheima

Pdf-skrá, Huldujörð Sólheima: 100510_Huldujord_Solheima

Pdf-skrá. Bréf frá Fasteignamati ríkisins: gudjon_þjóðskrá

Inngangur
Greinargerð þessi fjallar um mistök stjórnvaldsins í landinu sem leiða til þess að hið sama stjórnvald flytur án forsendna eign milli óskyldra aðila. Eignatilfærslan hefur hvorki stuðning af lögum eða rétti og er bótalaus eignaupptaka. Málið snýst um hluta af jarðartorfunni á Ytri-Sólheimum í Vestur-Skaftafellssýslu sem hér eftir er nefnd Sólheimatorfa.

Sólheimatorfa fyrir árið 1918
Sólheimatorfa er 100 hundruð að fornu mati. Við lok 19. aldar var þar margbýlt. Samfella í eign og ábúð er rekjanleg til nútíðar. Ábýlisjarðir voru misstórar eins og kemur fram við uppboð Sólheimatorfu 20. okt. 1869.[1] Rétt er að vekja athygli á að við uppboðið var aðeins bændahelmingur Sólheimatorfu seldur og því þarf að tvöfalda alla dýrleika í uppboðinu til að torfan sé 100 hndr. forn. Heimajörðinni var í daglegu tali skipt í Austurjörð, 50 hndr. forn og Vesturjörð, 42,67 hndr. forn og Sólheimahjáleiga er 7,33 hndr. forn.[2] Er þá fulltalinn dýrleiki Sólheimatorfu.

Sólheimakot er hluti Vesturjarðar og er 12 hndr. forn.[3]  Aðrir hlutar Austur- og Vesturjarðar voru kenndir við eigendur eða ábúendur. Vesturjarðarhlutarnir sem ótaldir eru voru á síðari hluta nítjándu aldar setnir af tveimur ábúendum samtals 30,67 hndr. forn Skipting dýrleikans milli þessara tveggja jarða er dálítið á reiki. Stærri hlutinn var tæp 19 hndr. forn og er nú eign Einars G. Þorsteinssonar þ.e. jörðin Ytri-Sólheimar II.[4] Hinn hlutinn var tæp 12 hndr. forn og framundir aldarlok í ábúð Guðrúnar Eyjólfsdóttur. Bróðir Guðrúnar, Jón Eyjólfsson bjó ekki á Sólheimatorfu en var eigandi að 4 hndr. fornum af ábýli systur sinnar.[5]

Erlingur Brynjólfsson kaupir 30. jan. 1905 hálfa Austurjörðina eða 25 hndr. forn af Sverri Magnússyni.[6] Erlingur veðsetur 25 hndr. forn 5. des. 1911.[7] Hinn helming Austurjarðarinnar, 25 hndr. forn eignast Guðmundur Þorbjarnarson með tveimur kaupsamningum um aldamótin 1900.[8] Guðmundur skiptir Austurjarðarhluta sínum til helminga og setur undir leiguliða.[9] Hér skal nefnt að við uppboð Sólheimatorfu árið 1869 voru þessi jarðarhundruð setin af þeim tengdafeðgum Berent Sveinssyni og Sveini Árnasyni. Guðmundur Þorbjarnarson eignaðist einnig hlut Jóns Eyjólfssonar, 4 hndr. forn úr Vesturjörðinni.[10] Guðmundur Þorbjarnarson veðsetur, allan sinn hlut, 29 hndr. forn í Sólheimatorfu 4. nóv. 1909.[11] Árið 1914 selur Guðmundur alla eign sína í Sólheimatorfu til Ólafs H. Jónssonar. Salan er ekki tilgreind samkvæmt fornu mati.[12]

Fasteignamöt voru gerð árin 1918, 1930 og 1940 og gefin út árin 1922, 1932 og 1942. Verður nú um þau fjallað.

Fasteignamöt 1918 til 1932
Í matsgögnum fyrir fasteignamatið 1922 telur Ólafur eign sína í Sólheimatorfu fram á þann hátt að 12,5 hndr. að fornu mati voru leigujörð Einars Guðmundssonar, nefnd Ytri-Sólheimar VI. Hin leigujörðin, einnig 12,5 hndr. forn var setin af Páli Þórarinssyni frá árinu 1907.[13] Í fasteigna-matsgögnunum er leigujörð Páls og Vesturjarðarpartinum, 4 hndr. forn, sem Ólafur nytjaði sjálfur, slegið saman. Kemur greinilega fram að eignin er tvískipt. [14]

Dýrleiki heimajarðar Sólheima er hér færður úr 92,67 hndr. forn í 39,9 H samkvæmt matinu 1861. Því umreiknast 12,5 og 4 hndr. forn í 5 H 44 al. og 2 H samkvæmt 1861 matinu. Dýrleiki er ekki tilgreindur samkvæmt fornu mati í matsgögnunum að öðru en því að Sólheimahjáleiga er þar skráð 7,33 hndr. forn og heimajörðin öll 92,67 hndr. forn.[15] Í fasteignabókinni 1922 eru jarðir Ólafs H. Jónssonar sem hann leigir skráðar 15 H og 20 H að nýju mati. Í matsgögnum frá 1930:[16] og landskiptum 1944 kemur fram að nytjahluti hans er 5 H einnig samkvæmt 1922 matinu.[17]

Ekki verða bornar brigður á að ¼ af 20 H eru 5 H. Þegar nytjahlutinn 5 H er dreginn frá 20 H jörðinni Ytri-Sólheimar V er leiguhluti jarðarinnar jafn hinni leigujörðinni, Ytri-Sólheimar VI, eins og vera ber samkvæmt hinum fornu dýrleikum.

Árið 1924 kaupir Ásgeir Pálsson 7,5 hndr. forn úr Vesturjörð Sólheima af Eyjólfi Ólafssyni syni Guðrúnar Eyjólfsdóttur.[18] Jörð Ásgeirs fékk árið 1922 nafnið Ytri-Sólheimar III. Næstu áratugi sat Ásgeir jörð sína, Ytri-Sólheima III og leigujörðina sem faðir hans tók á leigu árið 1907. Leigujörðin, 12,5 hndr. forn að dýrleika.[19] var hluti af jörðinni Ytri-Sólheimar V. Hinn hluta Ytri-Sólheima V, að dýrleika 4 hndr. forn nytjaði Ólafur sjálfur eins og þegar hefur komið fram og var síðar ítrekað í fasteignamatsgögnum.[20]

Nafnarugl á jörðum
Árið 1940 skráir stjórnvaldið nýtt fasteignamat. Þá höfðu orðið þær breytingar að Ásgeir hafði fært bæ sinn úr bæjaþorpinu heima á stétt suður í Sólheimanes. Er sýnilegt að þeir Ólafur hafa komið sér saman um að hann teldi jarðapartana þrjá fram í einu lagi. Það er að segja eignarjörð sína, leigujörðina frá Ólafi og partinn sem Ólafur nytjaði sjálfur. Samsteypuna nefndi hann Framnes og var samsteypan á grundvelli nýs byggingarstaðar skilgreind sem nýbýli.[21

Ljóst er að hér er ekki bókað af nákvæmni. Ásgeir var aðeins eigandi að Ytri-Sólheimum III sem eru 9 H í fasteignabókinni frá 1922 og Ólafur var eigandi að Ytri-Sólheimum V sem eru 20 H í þeirri sömu bók. Það sem skráð er „Ca. 1/7“ er nytjahluti Ólafs úr samsteypunni Framnes og liggur þá beint við að þar séu fjögur hundruðin fornu sem hann nytjaði sjálfur. Vegna nafnabreytinganna losna jarðanúmer og stjórnvaldinu verða á þau afglöp að breyta og víxla númerum jarða. Jörðin Ytri-Sólheimar IV fær nafnið Ytri-Sólheimar III og fleira álíka gáfulegt er gert næstu áratugina.[22]

Eigendur Sólheimajarða kaupa af sér prestsmötukvöð á árunum 1942 til 1945. Þar er númerum jarða snúið á haus enn eina ferðina og eina leiðin að þekkja jarðir af eigendum sínum og af prestsmötu. Eru smjörpundin sem hver jörð galt í hlutfalli hins forna mats Sólheimajarða. Einnig þar höndlar Ásgeir með leigujörð sína sem hún sé hans eign og Ólafur greiðir aðeins af sér gjaldið fyrir nytjahlutann; fjögur hundruð forn.[23]

Nýting Sólheimafjöru er enn í dag í hlutfalli hins forna mats.

Ólafur H. Jónsson selur jörðina Ytri-Sólheima VI, að dýrleika 12,5 hndr. forn, þann 23. okt 1943 til Óskars M. Hallgrímssonar.[24]

Árið 1944 víxla sumir Sólheimabændur á milli sín slægjuskákum til að gera land hvers bónda samfelldara. Í skiptagerðinni kemur fram hin nána samvinna Ásgeirs og Ólafs. Einnig þar er tilgreindur nytjahluti Ólafs: „sem hann nytjar sjálfur“.[25]

Ljóst er að á þessum tíma á Ólafur alla jörðina Ytri-Sólheima V og „nytjar sjálfur“ hluta hennar eins og einnig kemur fram í fasteignamatsgögnum frá 1918, 1930 og 1940. Ólafur var vel gefinn maður með búfræðimenntun og var um tíma úttektarmaður í hreppnum. Það er fráleit staðhæfing að hann hafi gleymt að telja fram hluta eigna sinna í Sólheimatorfu til fasteignamats áratugum saman og að eigendur Sólheimatorfu hafi við landskipti árið 1944 samþykkt að rýra eignir sínar. Sú staðhæfing hefur þó verið á borð borin í tveimur dómsmálum um Sólheimatorfu. Skráningar fasteignamatanna sem hér hafa verið raktar sýna að hin ætlaða gleymska er misskilningur.

Afsal eignar en áframhaldandi eignakröfur
Þann 17. júlí árið 1955 afsalar Ólafur H. Jónsson jörðinni Ytri-Sólheimar V allri til Sigurðar Ásgeirssonar. Í afsalinu er vísað til fasteignamatsins 1932.[26] Samkvæmt afsalinu hafði Ólafur afsalað öllum sínum hlut í Sólheimatorfu. Afsalað er allri jörðinni Ytri-Sólheimum V og þar með bæði leigujörð Ásgeirs; 12,5 hundruð forn og fjögur hundruð forn sem „hann nytjar sjálfur“. Faðir Sigurðar; Ásgeir Pálsson í Framnesi, skrifar sem vitni undir afsalið. Í síðari gögnum kemur fram að Ásgeir taldi að sonur hans væri aðeins að kaupa 12,5 hundruð að fornu mati sem var einfaldlega rangt ef túlka á söluna út frá fasteignabókum. Orðalag afsalsins er afdráttarlaust um að Ólafur afsalar allri jörðinni Ytri-Sólheimar V:

Þorsteinn Jónsson tengdasonur Ólafs mun hafa haldið áfram að nytja þriðja hvern mánudag á Sólheimafjöru sem bendir til að Eystri-Sólheimafólk og Framnesfólk hafi staðið í góðri trú um að fjögur hundruð forn væru enn í eigu Eystri-Sólheimafólks en forn vinskapur var á milli heimilanna. Þessum ætlaða sameiginlega vilja fjölskyldnanna var ekki komið til skila til Fasteignamats ríkisins og með leiðréttingu á afsalinu.

Erfingjum Ólafs er skráður arfshluti, fjögur hundruð forn, árið 1961 í Sólheimatorfu við uppgjör dánarbúsins. Erfðafjárskýrslan er gerð af hreppsstjóra Ásgeiri Pálssyni og er ekki vitnað í gögn til að sanna eignarhlutann.[27] Fleiri sannanir eru til um að Ásgeir hafi ekki gert sér grein fyrir gildi afsalsins á jörðinni Ytri-Sólheimar V. Í bréfi til Fasteignamats ríkisins 19. janúar 1969 skrifar Ásgeir Pálsson matsmaður Dyrhólahrepps m.a:[28]

Jörðin Ytri-Sólheimar VII er stofnuð í veðmálabók Vestur-Skaftafellssýslu 20. okt. 1965 og er þar byggt á dánarbúsuppgjörinu.[29]

Stofnun jarðarinnar Ytri-Sólheimar VII inn á sameign Sólheimatorfu án þess að skilgreina hlutdeild í hlutfalli við aðra og án þess að skilgreina hvar eignin hafði legið innan Sólheimatorfu er ámælisverð stjórnsýsla. Að þinglýsa inn á sameign án vitundar sameigenda og án dóms er að mati undirritaðs brot á lögum um eignarrétt.

Í Reykjavík hélt Fasteignamat ríkisins utan um eignarhluti í jarðartorfum og í fasteignmamati frá 1969 er erfingjum Ólafs ekki skráður eignarhlutur í Sólheimatorfu. Ástæðan var einfaldlega sú að Ólafur hafði afsalað öllum sínum hlut í Sólheimatorfu.

Afglöp fasteignamatsnefndar
Haustið 1970 kæra erfingjar Ólafs til fasteignamatsnefndar Vestur-Skaftafellssýslu að þeim sé ekki fram talinn eignarhlutur í Sólheimatorfu.[30] Í kjölfarið stofnar fasteignamatsnefnd Vestur-Skaftafellssýslu jörðina Ytri-Sólheima 3a þann 18. des. 1970. Tilurð hinnar nýstofnuðu eignar er svofelld í úrskurðinum:[31]

Með úrskurðinum er erfingjum aðila sem hafði selt allan sinn eignarhlut í Sólheimatorfu úrskurðaður eignarhlutur í þeirri sömu Sólheimatorfu. Það er gert án þess að eigendur sameignarinnar, sem áttu lögvarða hagsmuni að verja, væru látnir vita. Það liðu mörg ár þar til eigendur Sólheimajarða fengu vitneskju um þessa huldujörð og aldrei hefur stjórnvaldið í landinu gert eigendum Sólheimajarða grein fyrir tilurð huldujarðarinnar. Úrskurðurinn er hliðstæður við að stjórnvaldið gæfi út úrskurð um að Jón Jónsson úti í bæ ætti kjallarann í húsi Péturs Péturssonar. Ofan í kaupið væri Pétur ekki látinn vita að búið væri að ræna hann kjallaranum.

Öll er gjörðin afglöp og er þar fyrst að telja að hún er stofnuð á fölskum forsendum; samkvæmt afsölum áttu erfingjar Ólafs engan eignarhlut í Sólheimatorfu. Í annan stað var jörðin Ytri-Sólheimar III; eignarjörð Ásgeirs innan við 8 hndr. forn þegar hún fyrst fékk númer árið 1918/1922. Í þriðja lagi gerði fasteignamatsnefnd sýslunnar þau mistök að telja fjögur hundruð forn vera tekna út úr eignarjörð Ásgeirs. Hið rétta er að fjögur hundruð forn og jörð Ásgeirs voru á nítjándu öld eitt ábýli í eigu syskinanna Guðrúnar og Jóns Eyjólfsbarna og þá tæp 12 hundruð forn úr Vesturjörð Sólheima eins og þegar hefur verið rakið. Í jarðamatinu 1922 eru fjögur hundruð forn hins vegar skráð með jörð sem um aldamót var hálft ábýli Vigfúsar Þórarinssonar og var nákvæmlega 12,5 hundruð forn og fjórðungur Austurjarðar. Þessir tveir partar voru í jarðabókinni nefndir Ytri-Sólheimar V og því samtals 16,5 hundruð forn að dýrleika.

Nýbýlið Framnes var stofnað fyrir árið 1940 af Ásgeiri Pálssyni og lagði hann til þess jörðina Ytri-Sólheima V, eign Ólafs H. Jónssonar, sem hann leigði að hluta og eigin jörð, Ytri-Sólheima III.[32]

Sólheimajarðir fengu fyrst nafn og númer við skráningu fasteignamats árið 1918.[33] Þau nöfn eru í fasteignamatinu 1922, fasteignamatsgögnum frá 1930 og fasteignamati á því byggðu árið 1932.[34] Þegar fasteignamat er gert árið 1940 losna tvö jarðanúmer vegna tilkomu nýbýlisins Framnes. Jarðamatsmenn breyta númerum/nöfnum annarra jarða á þann hátt sem fram kemur í eftirfarandi töflu:

Afglöp Fasteignamats ríkisins
Úrskurður fasteignamatsnefndar Vestur-Skaftafellssýslu hefur borist til Fasteignamats ríkisins. Þar á bæ hefur eðlilega verið litið svo á að í fyrri fasteignamötum hafi öll Sólheimatorfa verið fram talin. Fasteignamatið hefur því ályktað að hin nýja jörð hafi verið tekin út úr einhverri jarða Sólheimatorfu. Og þá nafnsins vegna talið að sú jörð sem skerða þyrfti til jafngildis við hina nýstofnuðu eign væri Ytri-Sólheimar III. Má kallast eðlilegt að Fasteignamatið hafi ályktað út frá þeim jarðanúmer sem höfðu verið notuð frá árinu 1940. Þessi frjálslega ályktunarhæfni stjórnvaldsins leiðir það hins vegar á refilstigu.

Erlingur Brynjólfsson kaupir jörð úr Sólheimatorfu, 25 hundruð forn að dýrleika 30. janúar 1905. Jörðin fær nafnið Ytri-Sólheimar IV árið 1918. Ísleifur Erlingsson eignast jörðina árið 1928 og á hana til dauðadags árið 1966. Við jarðamat árið 1940 er nafni jarðarinnar breytt í Ytri-Sólheimar III. Að Ísleifi gengnum er jörðin árið 1970 eign Lilju Tómasdóttur, ekkju hans og barna þeirra: Erlings, Hallberu, Margrétar og Tómasar. Þegar úrskurðurinn 18. des. 1970 var gerður var jörð erfingja Ísleifs Erlingssonar óskert. Engum hluta jarðarinnar hafði verið afsalað og má rekja jörðina óskerta til uppboðs Sólheimatorfu 23. okt. 1869.

Stjórnvaldið í landinu breytir/víxlar númerum jarða árið 1940. Einnig það eru afglöp, afglöp sem 30 árum síðar leiðir hið sama stjórnvald út á enn einn nýjan villustíg. Það er ekki gott að búa við stjórnvald sem er þeirrar náttúru að vinstri höndin veit ekki hvað sú hægri hefur gjört.

Ólafur H. Jónsson og Ásgeir Pálsson höfðu um langan aldur samskipti vegna leigujarðarinnar. Tilurð þessa dæmalausa úrskurðar verður rakin til þess. Úrskurðurinn er tengdur nöfnunum Framnes og Ytri-Sólheimar III. Þessi tvö nöfn tengjast á einn veg á þann hátt að nýbýlið Framnes er reist að hluta á jörð sem hét Ytri-Sólheimar III til ársins 1940.

Mergur málsins er að erfingjar Ólafs geta með engu móti átt eignarheimildir í þá jörð sem Erlingur Brynjólfsson kaupir árið 1905 og sonur hans Ísleifur á alla til dauðadags árið 1966. Ósamfella í skráningu á dýrleika, nafnarugl á jörðum, í einu orði vond stjórnsýsla, sem ekki hafði yfirsýn yfir hvað hún gerði, hefur orðið þess valdandi að eignum hefur verið rænt af saklausu fólki að því er virðist án þess að nokkur gerði sér grein fyrir til haustsins 2009 þegar undirritaður lagði saman landverð Sólheimatorfu í fasteignamati frá árunum 1970 og 1973. Í fasteignamats-gögnunum kemur fram að ríkisvaldið hefur rænt eigendur jarðarinnar Ytri-Sólheimar 3 til þriðja aðila.

Hulin mistök stjórnvaldsins
Sumarið 1973 deyr Lilja Tómasdóttir og er jörðin þá öll eign barna hennar. Samkvæmt fasteignmötum frá 1970 og 1973 hefur jörðin Ytri-Sólheimar 3 verið skert við skráninguna 5. okt. 1973 eins og sjá má með samanburði á töflunum hér fyrir neðan.[35]

Athygli vekur að jörðin Ytri-Sólheimar 3a er skráð með sama land- og hlunnindaverði eins og í úrskurðinum frá 18. des. 1970. Samræmið í töflunum er sláandi. Enginn vafi er á að eigendur Ytri-Sólheima 3 hafa verið rændir hluta af eigum sínum.

Þegar stjórnvaldið skerðir jörðina Ytri-Sólheima 3 er jörðin dánarbú. Skiptaráðandinn, sýslumaður Vestur-Skaftafellssýslu, gengur frá einkaskiptum 19. nóv. 1975 án þess að gæta að eignin hafði verið skert.[36] Sami sýslumaður tók einnig þá ákvörðun að stofna jörðina Ytri-Sólheima VII árið 1965. Sá gerningur skilaði sér aldrei til annarra arma ríkiskerfisins.

Hlutfall milli Sólheimajarða hefur sveiflast í 150 ár og á reiki hvort og hvaða fasteignamat ráði eignahlutfalli. Eigendur Ytri-Sólheima 3 vissu ekki í nær fjörtíu ár að jörð þeirra var skert eins og hér hefur verið rakið. Ástæðan er m.a. að enn í dag fær jarðeigandi ekki vitneskju um hvað landverð annarra sameigenda á Sólheimatorfu er skráð hjá Fasteignamati ríkisins.

Skráning hinnar ætluðu eignar, Ytri-Sólheima 3a, í skiptavottorði eftir Valgerði Sigríði Ólafsdóttur þ. 3. júlí 2001 byggir á villugögnum. [37] Valgerður Sigríður var dóttir Ólafs H. Jónssonar sem seldi í tveimur sölum allan sinn hlut í Sólheimatorfu. Engu að síður er hin ætlaða eign þinglýst í bókum embættis sýslumanns Vestur-Skaftafellssýslu sem eign erfingja hennar. Þá er jörðin Ytri-Sólheimar 3a skráð hjá Fasteignamati ríkisins árið 2010 með landverð 331.000 kr og reki 30.000 kr.

Eigendur jarðarinnar Ytri-Sólheimar 3 óska eftir að eftirfarandi verði gert:

 1. Skráðir eigendur jarðarinnar Ytri-Sólheimar 3a lýsi því yfir að jörðin Ytri-Sólheimar 3a hafi ranglega verið tekin út úr jörðinni Ytri-Sólheimar 3 og að færa eigi alla eignina Ytri-Sólheimar 3a til eigenda jarðarinnar Ytri-Sólheimar 3.
 1. Sýslumaðurinn í Vestur-Skaftafellssýslu ógildi skiptavottorð dánarbús Valgerðar Sigríðar Ólafsdóttur dagsett 3. Júlí 2001 og skráningu eignarinnar Ytri-Sólheimar 3a í veðmálabók sýslunnar á þeirri forsendu að hin ætlaða eign hafi með ólögmætum hætti verið dregin af jörðinni Ytri-Sólheimar 3 sem var á þeim tíma, haustið 1973, eign erfingja Lilju Tómasdóttur og Ísleifs Erlingssonar.
 2. Fasteignamat ríkisins færi landverð og reka jarðarinnar Ytri-sólheimar 3a til jarðarinnar Ytri-Sólheimar 3 á þeirri forsendu að hin ætlaða eign hafi með ólögmætum hætti verið dregin af jörðinni Ytri-Sólheimar 3 sem var á þeim tíma, haustið 1973, eign erfingja Lilju Tómasdóttur og Ísleifs Erlingssonar.

Ekkert getur réttlætt að jörðin Ytri-sólheimar 3a var tekin út úr jörðinni Ytri-sólheimar 3 árið 1973. Sá gerningur er greinilega mistök stjórnvaldsins. Ekki er ætlandi að heiðarlegt fólk vilji sitja með eigur annarra vegna mistaka stjórnvaldsins.

Reykjavík 10. maí. 2010

____________________________________

Tómas Ísleifsson

Töflur

Við uppboð Sólheimatorfu er aðeins bændahlutinn skráður, 50 hndr. forn. Kirkjuhluti hvers ábýlis var jafnstór.

Í jarðabókinni frá 1861 er torfan skráð 52,1 H.

Þegar forna matið er umreiknað yfir í 1861 matið árið 1918 verða þau mistök við skráninguna að Ytri-Sólheimar I eru skráðir 15 H og 16 al. Samtala torfunnar er þá 62,1 H sem er rangt. Jörðin Ytri-Sólheimar I er tæp 13% af heimajörðinni en er með villunni 38%. Leiðrétt er jörðin 13% heimajarðarinnar.

Hér sést hvernig Kirkjumálaráðuneytið skiptir prestsmötukvöðinni á milli ábúenda Sólheimajarða.

Númer Sólheimajarða hjá ráðuneytinu er ekki í samræmi við þau númer sem aðrir armar stjórnvaldsins hafa notað. Jarðir þekkjast af ábúendum og hlutfalli prestsmötu sem er samkvæmt hinu forna mati.

 

Heimildir í sömu röð og í greinargerð

 1. Uppboð Sólheimatorfu 20. okt. 1869.
 2. Ný Jarðabók fyrir Ísland 1861 og fleiri heimildir.
 3. Afsal 17. okt. 1900 og fleiri heimildir.
 4. Kaupsamningur 10. maí 1943 og fleiri heimildir
 5. Yfirlýsing 7. jan. 1902
 6. Kaupsamningur 30. jan. 1905.
 7. Veðsetning á 25 hndr. fornt mat 5. des. 1911
 8. Afsal 7. apríl 1900 og afsal 8. apríl 1901.
 9. Jarðaúttektir 18. apríl 1901 á tveimur ábýlum á Sólheimatorfu
 10. Kaupsamningur 2. okt. 1904.
 11. Veðsetning 4. nóv. 1909.
 12. Kaupsamningur 24. nóv. 1914.
 13. Jarðarúttekt 27. maí 1907.
 14. Gjörðabók fasteignamatsnefndar fyrir fasteignamatið 1922
 15. Yfirlit, gjörðabók fasteignamatsnefndar fyrir fasteignamatið 1922
 16. Fasteignabók 1922.
 17. Kaupsamningur 29. júní 1924.
 18. Samningur 22. júní 1922.
 19. Fasteignamatsgögn 1930 og fasteignamat 1932.
 20. Jörð Ásgeirs Pálssonar í veðmálabók.
 21. Prestsmata Sólheimajarða 1942-1945.
 22. Kaupsamningur 23. okt. 1943.
 23. Landskipti Sólheima 1944.
 24. Afsal 17. júlí 1955.
 25. Erfðafjárskýrsla 26. júní 1961.
 26. „Stofnuð“ jörðin Ytri-Sólheimar VII í veðmálabók 20. okt 1965.
 27. Kæra til fasteignamatsnefndar 18. nóv. 1970.
 28. Úrskurður fasteignamatsnefndar 18. des. 1970.
 29. Fasteignamöt 1970 og 1973.
 30. Erfðafjárskýrsla 19. nóv. 1975.
 31. Skiptavottorð 3. júlí 2001.

[1]  Uppboð Sólheimatorfu 20. okt. 1869.
[2]  Ný Jarðabók fyrir Ísland 1861 og fleiri heimildir.
[3]  Afsal 17. okt. 1900 og fleiri heimildir.
[4]  Kaupsamningur 10. maí 1943 og fleiri heimildir
[5]  Yfirlýsing 7. jan. 1902
[6]  Kaupsamningur 30. jan. 1905.
[7]  Veðsetning á 25 hndr. fornt mat 5. des. 1911
[8]  Afsal 7. apríl 1900 og afsal 8. apríl 1901.
[9]  Jarðaúttektir 18. apríl 1901 á tveimur ábýlum á Sólheimatorfu
[10]  Kaupsamningur 2. okt. 1904.
[11]  Veðsetning 4. nóv. 1909.
[12]  Kaupsamningur 24. nóv. 1914.
[13]  Jarðarúttekt 27. maí 1907.
[14]  Gjörðabók fasteignamatsnefndar fyrir fasteignamatið 1922
[15]  Yfirlit, gjörðabók fasteignamatsnefndar fyrir fasteignamatið 1922
[16]  Gjörðabók fasteignamatsnefndar fyrir fasteignamatið 1932
[17]  Fasteignabók 1922.
[18]  Kaupsamningur 29. júní 1924.
[19]  Samningur 22. júní 1922 og jarðarúttekt 27. maí 1907.
[20]  Fasteignamatsgögn 1930 og fasteignamat 1932.
[21]  Gjörðabók fasteignamatsnefndar fyrir fasteignamatið 1942
[22]  Jörð Ásgeirs Pálssonar í veðmálabók.
[23]  Prestsmata Sólheimajarða 1942-1945.
[24]  Kaupsamningur 23. okt. 1943.
[25]  Landskipti Sólheima 1944.
[26]  Afsal 17. júlí 1955.
[27]  Erfðafjárskýrsla 26. júní 1961.
[28]  Bréf til Fasteignamats ríkisins
[29]  Stofnuð jörðin Ytri-Sólheimar VII í veðmálabók 20. okt 1965.
[30]  Kæra til fasteignamatsnefndar 18. nóv. 1970.
[31]  Úrskurður fasteignamatsnefndar  18. des. 1970.
[32]  Fasteignamatsgögn 1940, fasteignamat 1942 og jörð Ásgeirs Pálssonar í veðmálabók.
[33]  Gjörðabók fasteignamatsnefndar fyrir fasteignamatið 1922
[34]  Fasteignamatsgögn 1930 og fasteignamat 1932.
[35]  Fasteignamöt 1970 og 1973.
[36]  Erfðafjárskýrsla 19. nóv. 1975.
[37]  Skiptavottorð 3. júlí 2001.