Dómur nr. 610/2007

Hæstaréttardómur nr. 610/2007, pdf-skjal: domur_610_2007

Málsskjöl og umfjöllun um þau

Hæstiréttur byggir úrskurð sinn á tveim villutilvísunum í Jarðatali Johnsens 1847. Á þeim forsendum segir rétturinn að vafi leiki á að Sólheimatorfa hafi verið skilgreind 100 H forn í eignarrétti. Hér eru í framhaldi sýnd hluti þeirra málsgagna, sem staðfesta að torfan hefur frá öndverðu verið skilgreind 100 H forn í eignarrétti kaupahluta jarðarinnar.

Ég legg áherslu á að kirkjueign í torfunni kom ekki til álita í eignarrétti kaupahlutans fyrr en kirkjan var lögð niður með samningi 20. maí 1898. Sjá málsskjöl bls. 173 til 176. Um lögmæti þess að eigendur kaupahlutans hafi með samningnum eignast kirkjuhluta jarðarinnar er hægt að hafa efasemdir. Hliðstæðir samningar voru í þá tíð gerðir um allt Ísland. Um meintan þjófnað á kirknaeignum um aldir, vítt um land, fjalla ég ekki hér.

Nú; í júnímánuði 2018, er ástæða til að skýra misræmi á skráðum dýrleika jarðarinnar í heimildum. Misræminu geri ég nokkur skil í Morgunblaðsgreininni: Dýrust jörð á Íslandi. Misræmið felst í því að í jarðabókum er eign kirkjunnar í jörðinni ekki skráð, nema í Jarða og bændatali 1752-1767. Hið rétta er að forn dýrleiki kaupahlutans var 100 H og kirkjuhlutans var einnig 100 H, samtals 200 H. Öll skrif um jörðina á nítjándu- og tuttugustu öld gera hins vegar ráð fyrir að jörðin öll hafi verið 100 H forn og þá kirkjueignin 50 H og kaupahlutinn 50 H.

Misræmið hefur engin áhrif á skiptingu jarðarinnar á milli ábýla. Kirkjuhlutinn eða umsjón hans fylgdi ætíð að jöfnum hlut. Þegar hæstaréttarmálið nr. 610/2007 var til umfjöllunar, haustið 2008, var gengið út frá að jörðin öll væri 100 H að fornu mati.

Nú áratug síðar hef ég fyrst í höndum tvær heimildir sem sannfæra mig um að jörðin öll var 200 H að fornu mati. Misskilningur síðustu tveggja alda breytir ekki eðli þess dómsmáls sem hér er til umfjöllunar.

Eftirfarandi eru tvær klippur úr málsskjölum, með viðhangandi prentstafa útskrift. Klippurnar sýna að Ytri-Sólheimar með Hjáleigunni eru 100 H í jarðabókinni 1805. Johnsen vitnar rangt í heimildina og Hæstiréttur notar rangfærsluna til að byggja dóm sinn á. Í Kastljósi 5.12.2017 kom fram að Markús Sigurbjörnsson virðist ekki hafa haft tíma til að lesa málsgögnin vegna annarra verka.

Tengsl eignarmanna við eldri heimildir og afkomendur þeirra nú eru þekkt. Samanlagðir eignarpartar eru 99 H og 120 álnir eða 100 H. Hér sést að torfan var halldinn 100 H í eignarrétti – Eigninni er skipt milli eigenda.

Þá er að skoða forsendur Hæstaréttar Íslands – hér er textalit breytt

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. landskiptalaga gildir sú aðalregla að skipta skuli sameign, sem lögin taka til eftir ákvæðum 1. gr. þeirra, eftir jarðamati frá 1861, þar sem því verður við komið, en séu tvær eða fleiri jarðir metnar þar í einu lagi og aðgreint mat sé að finna í jarðatali Johnsens frá 1847 skuli það lagt til grundvallar, sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna. Að þessum kostum frágengnum verði lagt til grundvallar mat samkvæmt fasteignabók frá 1922 eða síðari fasteignabókum, en þó þannig að alltaf verði notað elsta matið, sem við verður komið, sbr. 3. mgr. sömu lagagreinar. Með 4. mgr. hennar er að auki heimilað að leggja til grundvallar önnur eignarhlutföll en leiðir af framangreindu ef þau hafa gilt manna á meðal í minnst 20 ár og allir eigendur samþykkja að þau haldist. Af lögskýringargögnum er ljóst að þessi fyrirmæli voru sett til að leggja grunn að eignarhlutföllum við landskipti og þætti „sjálfsagt að lögákveða skiptahlutföll jarða eftir jarðamatinu frá 1861, þar sem því verður við komið, enda verður ekki komizt nær hinu rétta á annan hátt“, svo sem sagði í athugasemdum við frumvarp til landskiptalaga. Ekki verður annað ráðið en að löggjafinn hafi með þessu talið áreiðanleika eldri heimilda en þeirra, sem um getur í 2. gr. landskiptalaga, orka svo tvímælis að ekki væri fært að styðjast við þær í þessum efnum. Í máli þessu háttar svo til að eldri heimildir um dýrleika Ytri-Sólheimajarða samanlagðra sýnast misvísandi, enda var gerð sú athugasemd um þetta efni í áðurnefndu jarðatali frá 1847 að „1806 er jörð þessi (hálf bænda eign og hálf eign kirkjunnar) talin aðeins 100 h., og hjáleigan sér 7 / h.; sýslumaður þar á móti telur alla jörðina 100 h., en í jarðabókunum (enum eldri, 1760) er hún sögð 120 / h.“ Verður því ekki annað séð en að þær forsendur, sem ákvæði 2. gr. landskiptalaga voru reist á samkvæmt framansögðu, eigi meðal annars við óskipt land Ytri-Sólheimajarða. Með því að áfrýjendur hafa ekki sýnt fram á að skilyrði séu til að beita fyrirmælum 4. mgr. 2. gr. landskiptalaga við úrlausn málsins verður að gerðum þessum athugasemdum hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna hans. Áfrýjendum verður gert að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Og hér til hliðar gefur á að líta þá villum hlöðnu bók Johnsens og við hlið hennar texti úr Landsyfirréttardómi um Sólheimatorfu frá 27. nóvember 1871:
Sýslumaðurinn í Skaptafellssýslu lét þar næst 6. sept. 1869 ganga út auglýsingu um,kaupahlutinn í Ytri-Sólheimum 50 hdr. yrði seldur við opinbert uppboð 20. október næst á eftir, og að kirkjuhlutinn 50 hdr. fylgdi með í kaupinu, og fór uppboðið fram hinn ákveðna dag að Ytri-Sólheimum, hvar Ólafur Pálsson á Höfðabrekku varð hæstbjóðandi að téðri jörð fyrir 1869 rd.

Þessari uppboðsgjörð hefir Guðmundur Ólafsson, bóndi á Péturseyjarhólum og aðrir sameigendur að Ytri-Sólheimum, að fenginni uppreisn og gjafsókn, áfrýjað til yfirdómsins með stefnu dagsettri 22. maí þ. á., og krafizt, að téð uppboðsgjörð verði dæmd marklaus, og að hæstbjóðandi og uppboðskrefjendurnir verði dæmdir allir fyrir einn og einn fyrir alla til að greiða sér allan málskostnað skaðlaust eða að minnsta kosti 70 rd. Hinir stefndu hafa aftur á móti krafizt, að uppboðsgjörðin verði staðfest og áfrýjendurnir skyldaðir til in solidum að borga sér málskostnað skaðlaust eða með einhverju nægilegu.
…Að því leyti sem mál þetta hefir verið gjafsóknarmál, vottast, að það hefir verið fært forsvaranlega.

Því dæmist rétt vera:
Hin áfrýjaða  uppboðsréttargjörð sýslumannsins í Skaptafellssýslu frá 20. október 1869 á ómerk að vera. Uppboðskrefjendunum, Jóni umboðsmanni Jónssyni í Vík og erfingjum prestsekkjunnar Sigríðar Pálsdóttur á Breiðabólstað, ber in solidum að borga áfrýjendunum málskostnað fyrir yfirdóminum með 25 rd., þar á meðal 15 rd. í málsfærslulaun til hins skipaða talsmanns áfrýjendanna fyrir yfirdóminum, Jóns málflutningsmanns Guðmundssonar. Hið ídæmda að greiða innan 8 vikna frá dóms þessa löglegri birtingu undir aðför að lögum. Th. jónassen

Í málsskjölum eru 13 heimildir um að Ytri-Sólheimar eru 100 H forn að dýrleika. Samanber taflan um dýrleika. Einu heimildirnar um annan halldinn dýrleika eru villuskráningarnar í jarðabók Skúla 1760 og hjá Johnsen 1847. Í málsskjölum eru víðtækar heimildir um að eignin öll gekk kaupum og sölum með dýrleikanum 100 H um aldir. Hvers vegna er í dómnum þagað þunnu hljóði um Landsyfirréttardóminn og öll málsgögn hans? Hvers vegna eru skrif jafn mikilhæfs manns og  Jóns Guðmundsonar sýslumanns, þingmanns, lögmanns og ritstjóra, einskis virt?

Veðmálaregistur frá um 1800 til 1930
Það eru ríkar ástæður til að sýna fleiri málsgögn hæstaréttarmáls nr. 610/2007 um að Sólheimatorfa hefur frá öndverðu verið 100 H að fornu mati í eignarrétti.

Veðmálaregistur eru sem kunnugt er gerð til að lánardrottnar; bankar jafnt sem einstaklingar hafi, skráð hjá stjórnvaldinu, veð í jarðeignum og raunar fleiru. Hér eru klippur úr veðmálaregistri Skaftafellssýslna. Sæmilega sést efst í klippunni að heimajörð Sólheima er skráð 92 H og 70 al. Þá er Hjáleigan skráð 7 H og 50 al. Torfan öll 99 H og 120 al, eða 100 H forn. Skráning Hjáleigunnar niður um 10 álnir er mistök, því heimild er um sölu Hjáleigunnar á átjándu öld, sem er í samræmi við haus registursins og jarðabókina 1805, hér ofar.

Það er vitstola dómsvald, sem er reiðubúið til að kyngja því að Þorvaldur Björnsson í Núpakoti kaupir Hjáleiguna skilgreinda skráða 7,33% af Sólheimatorfu árið 1887 og að hann selji sömu jörð árið 1915 – þá skilgreinda sem 23,2% torfunnar. Loks er fráleitt að dómsvaldið komist að þeirri niðurstöðu að Hjáleigunni skuli skenkjast af óskiptu 15,5% eftir sölumatinu 1922.

Sókn fyrir Landsyfirrétti árið 1871 til að hnekkja uppboði Sólheimatorfu 20.10.1869
Hér til hliðar og neðar er klippa úr gjafsóknarmáli vegna Ytri-Sólheimajarða. Sóknarskjalið er fjórar handskrifaðar síður. Um penna hélt Jón Guðmundsson málflutningsmaður í Landsyfirrétti. Hann var um langan aldur þingmaður Skaftfellinga og sýslumaður, þegar nýja sölu-/skattmatið var gert á árunum 1849-1850.
Einnig var hann formaður yfirmatsins á Kleifaþingstað sumarið 1850 og skrifaði þá að Sólheimahjáleiga væri álitin um 7/100 af Sólheimatorfu.

Raunar var Jón helsti sérfræðingur landsins í eignar- og skattarétti á þeim dögum. Um árabil var hann einn af þremur nefndarmönnum Alþingis um nýtt jarðamat og löggildingu þess í skattarétti. Jón var í forystu fyrir þjóðfrelsi Íslendinga ásamt nafna sínum Sigurðssyni í Höfn:  Alþingismaður, “sá halti á þjóðfundinum 1851” og ritstjóri landsmálablaðsins Þjóðólfs 1852-1874.

Mestur hluti sóknarskjalsins (þ.e. Landsyfirréttur árið 1871) var skráður með prentletri í málsskjölum á bls. 142 (þ.e. Hæstiréttur nr. 610/2007). Texti hér sýndrar klippu er eftirfarandi:

…að eignin varð nú við uppboðið 20 Oct 1869 boðin upp og seld, ekki eptir þeim dýrleika eður nýa hundraðatali sem er ákveðið í jarðabókinni 1861, einsog nú var sýnt, heldr sem 100 H forn samtals, en einungis “kaupahluti” hennar eður bændaeignin 50 H  boðin upp, en eptir uppboðsskilmálanna (CitrA) 5 töluliðs, “skyldi í kaupinu fylgja kirkjuhlutinn, helmingur jarðarinnar, sem er óaðgreinanlega sameinað kaupahlutanum. Svo og öll kúgildi jarðarinnar yfirhöfuð” (16, kúgildi að tölu, með því presturinn skal uppbera árlega 16 fnð. prestmötu af allri Sólheimaeigninni: Johnsens jarðatal bls. 19.)
Þannig var öll Ytri-Sólheima eignin boðin þarna upp fyrir uppboðsréttinum 20 Oct 1869…

Ekki fer á milli mála að hér er fjallað um eignarrétt Sólheimatorfu og að eignin öll er skilgreind 100 H.

Uppboð Sólheimatorfu 1869
Þá klippa úr uppboðsskýrslu Árna sýslumanns Gíslasonar. Skýrslan er enn ein heimildin, sem var lögð í hendur dómara Hæstaréttar um að Sólheimatorfa hefur ætíð verið 100 H forn í eignarrétti. Bændaeign torfunnar er skráð 50 H forn við uppboð eignarinnar þ. 20.10.1869. Fjöldi samhljóða heimilda eru um að kirkjuhluti torfunnar var einnig 50 H og því torfan öll 100 H forn í eignarrétti. Aðrir dýrleikar komu þar ekki við sögu.

Fasteignamatsgögn fyrir skattmatið 1922
Hér litlu neðar er skjal jarðamatsmanna Vestur-Skaftafellssýslu frá árinu 1918. Skjalið er hluti af matsgögnum nefndarinnar, sem sölumatið/skattmatið 1922 er byggt á. Sólheimahjáleiga 7 1/3 H og Sólheimar, ytri 92 2/3 H, samtals 100 H forn. Við málflutning í Hæstarétti 24.9.2008 var dómurum bent á skjalið og fyrrgreind málsskjöl Landsyfirréttar. Í dómsorðum Sólheimamáls árið 2008 sjást ekki merki þess að dómarar hins háa réttar hafi séð skjölin.

Hugleiðingar
Er siðlegt og löglegt að tína það til, sem hentar fyrirfram ákveðinni niðurstöðu og sleppa öllu öðru? Er hægt að trúa því að dómur réttarins sé unninn af trúmennsku? Verklag dómsins ber merki einbeitts brotavilja dómara. Er hægt að bera virðingu fyrir slíkum Hæstarétti?

Á Íslandi er talið mikilsvert að hafa þrískipt ríkisvald. Með því viljum við tryggja velsæld, réttlæti og jafnræði.

Dómsvaldinu er ekki ætlað að vera viljalaust, dómgreindarlaust og blint. Því er ætlað að hafa þekkingu á lögum. Hæstarétti ber að hafa yfirsýn á meginreglur – grundvöll laga –  og vera löggjafar- og framkvæmdavaldi til leiðsagnar. Hæstarétti ber að hafa heilindi og hugrekki til að dæma að lögum. Hér var dómkrafa um að virða bæri Stjórnarskrárvarinn eignarrétt.

Stjórnarskráin er að lögum, sem standa framar, en landskiptalög. Til úrskurðar var tjaldað til fimm dómurum. Þeir ákváðu, réttilega, að byggja úrskurð sinn  á sönnunargögnum um hvort Sólheimatorfa öll sé og hafi ætíð verið 100 H forn í eignarrétti eða ekki. Dómurunum bar að taka efnislega afstöðu til allra sönnunargagna um dýrleika torfunnar. Það gerðu þeir ekki.

Ég hef oft verið spurður um hvort dómur Hæstaréttar þ. 2.10.2008 flokkist til dóma, sem halla réttu máli til að draga taum vildarvina voldugra aðila. Ég hef alltaf svarað tilgátunni neitandi. Ég tel að sérplægni dómara hafi ráðið för – að dómurum réttarins hafi ekki hugnast að kveða upp dóm í eignarrétti landskipta, sem byggður er á löggerningum.

Getur verið að dómarar málsins hafi talið að frávik frá landskiptalögum væri hættulegt fordæmi, sem gæti orðið dómstólnum erfitt? Ef dómurinn hefði lagt mat á sönnunargögnin öll, hefði rétturinn vikið af braut blindrar hlýðni um að meta slumpsölumöt skattbóka gild sönnunargögn í eignarrétti.

Hlýðni við landskiptalög gefur Hæstarétti kost á að kveða upp dóma, án þess að skoða lögmæt sönnunargögn. Aðeins þarf að kíkja í þrjár prentaðar bækur. Það er einfaldast og kostar minni vinnu. Þannig verða stólar réttarins mýkri.