A. Glámskyggn hæstaréttardómari

Klippur úr Jarðabók 1805, Eignarpartar 99 H 120 al. eða 100 H

Morgunblaðið, grein 3. feb. 2017: 170203_glamskyggn_domari

Skrif um dóm í eignarréttarmáli byggðum á heimild frá 1847, þvert á 14 heimildir. Heimildin er falsheimild. Frumheimildin var í höndum dómara málsins.

Þann 5.12.2016 var í Kastljósi fjallað um fjársýslu dómara við Hæstarétt. Fram kom að Markús Sigurbjörnsson dómari var fyrir „hrunið“ haustið 2008 að sýsla með eigin fjármuni uppá tugi milljóna. Fjármálaumsvif dómarans samræmast ekki starfsskyldum hans. Við þá sýslan var hann þ. 29.9.2008 og dagana þar í kring.

Á þeim dögum átti hann að dæma í hæstaréttarmálinu nr. 610/2007. Málflutningur var 24.9.2008 og var dómur kveðinn upp 2.10.2008. Markús er eini dómari málsins sem enn starfar við réttinn. Dómararnir lásu ekki málsgögnin. Sannanlega ekki aðra heimildina, sem þeir byggðu dóminn á. Markús var of upptekinn við eigin fjársýslu til að sinna starfi sínu.

Úrlausnarefnið var eignarréttur landskipta á jarðartorfunni Ytri-Sólheimar. Deilan snérist um eignarhlutfall í óskiptri sameign torfunnar. Dómkrafa sóknaraðila, eigenda Ytri-Sólheima 3, var að staðfest yrði með dómi að eign þeirra í sameign væri 25%. Krafan studdist einkum við: Kaupbréf Erlings Brynjólfssonar á 25 H að fornu mati úr torfunni, dagsett 30.1.1905. Þá voru 14 heimildir um að torfan er 100 H að fornu mati. Í þriðja lagi var krafa um að Stjórnarskrárvarinn eignarréttur gangi framar landskiptalögum.

Til varnar í héraði og Hæstarétti voru Einar Þorsteinsson og Eyrún Sæmundsdóttir í Sólheimahjáleigu, ásamt dóttur og tengdasyni. Kröfðust þau að torfunni yrði skipt samkvæmt landskiptalögum. Mikið bar á milli hjá aðilum málsins: Hjáleigan er að fornu mati 7,33% af torfunni, en 15,5% samkvæmt landskiptalögum. Verjendur hlutu stuðning aðila sem er skráður eigandi að 4% part í torfunni. Í gögnum málsins liggur fyrir að á tuttugustu öld hefur stjórnsýslan smíðað hverja kórvilluna eftir aðra um eignahluti torfunnar og á það ekki síst við um fyrrgreindan 4% part Eystri-Sólheimasystkina. Þær flækjur eru slíkar að ekki er kostur að greiða þær hér. Tvímæli eru um hvort þau systkin eru eigendur að partinum eða Elín Einarsdóttir.

Sækjendur töpuðu málinu í héraði. Taldi dómurinn ekki heimilt að dæma á grundvelli eignarréttarákvæða Stjórnarskrár. Dómnum bæri að lúta ákvæðum laga nr. 46/1941. Hæstarétti var nokkur vandi á höndum: Annars vegar lagði sóknaraðili fram víðtækar heimildir um eignarhlut sinn og krafðist þess að hann væri varinn. Hins vegar bar dómnum að horfa einnig til landskiptalaga. Telja má að tilvísun sækjenda í Stjórnarskrá hafi knúið réttinn til að hafa meira við. Málið var dómtekið með fimm dómurum.

Rótina að deilu málsaðila má rekja til laga nr. 46/1941, sem eru einstök að endemum, hvort heldur vísað er til íslensks eða evrópsks réttar. Lögin leyfa þrjú sönnunargögn! Flestum er í brjóst lögð sú réttlætiskennd að öll tiltæk sönnunargögn beri að skoða í dómsmáli. Það er, svo dæmi séu tekin, leyfilegt að meta sönnunargildi hnífs í morðmáli og kaupbréf hafa um aldir, hérlendis sem erlendis, verið gild til sönnunar í eignarrétti. Raunar eru þinglýst eignaskjöl, oftast kaupbréf, þau sönnunargögn sem best tryggja eignarhald. Sá kross er lagður á herðar dómara að meta hvað teljist gild sönnun ef skjöl eru véfengd.

Núverandi landskiptalög tilgreina að í eignarrétti landskipta skuli fara eftir skráðu hlutfalli í þremur prentuðum jarðabókum. Ekki er bannað að skoða fleira. Dómarar hafa hins vegar fegnir stokkið í það skjól að ekki megi skipta landi eftir öðrum heimildum þrátt fyrir að jarðabækur eru gerðar fyrir skattheimtu og kaupbréf fyrir eignarrétt. Það er einfaldara að skoða fá sönnunargögn, en mörg!

Hæstiréttur hafnaði dómkröfu sóknaraðila með tvíþættri tilvísun í Jarðatal Johnsens 1847. Þar er torfan skráð bæði 107,5 H og 120 1/6 H og þá óvíst hvort 25 H séu 25% af torfunni.

Johnsen vitnar rangt í frumheimild frá árinu 1805. Frumheimildin tilgreinir að torfan öll er 100 H og heimildina lagði ég fyrir réttinn. -Dómstóllinn byggði á heimild sem vitnar rangt í frumheimild. Þá skráir Johnsen dýrleikann 120 1/6 H eftir Jarðabók Skúla fógeta 1760. Ég tel það bera vott um þekkingarskort á fornum jarðabókum að tortryggja ekki skráninguna. Dómurum ber að afla sér þekkingar á þeim gögnum, sem þeir byggja dóma sína á. Um dóminn skrifaði ég á árinu 2009 greinar í þetta blað með heitinu Glámskyggn heimildarýni Hæstaréttar.

Í tuttugu ár hef ég leitað að forsendum Skúla. Fyrir þremur árum fann ég ítarlega skráningu Lýðs sýslumanns frá Dyrhólaþingi 10.11.1759 með undirskriftum þingvotta. Þar er torfan skráð 100 H. Í haust var frumheimild Skúla; skýrslur sýslumanna frá árunum 1753-54, lagðar í hendur mér. Skýrsla Þorsteins Bjarnasonar um Dyrhólahrepp hrekur skráninguna í jarðabók Skúla. Báðar stoðir dómsins eru hrundar.

Markús er ber að því að meta meir að sýsla með fjármuni sína dagana fyrir bankahrunið haustið 2008, en að gegna skyldu sinni. Hann las ekki dómsskjalið, sem hann byggði dóm sinn á. Skjalið sem ég lagði í hendur honum.

Hann dæmdi mig til að greiða allan málskostnað og í kjölfarið tapaði ég eignum á hrakvirði.

Hvort mun virðing Hæstaréttar skaðast af veru Markúsar Sigurbjörnssonar við dómstólinn?

Tómas Ísleifsson líffræðingur