D. “Leyfileg sönnunargögn”

Morgunblaðið, grein 21. mars 2017: leyfileg_gogn

Á Leiðvallarþingi 21.9.1695: “Sólheimar itre LL H”

Hér er skrifað um landskiptalög, sem leyfa ekki löggerninga til sönnunar í eignarrétti, aðeins þrjár bækur. Önnur sönnunargögn eru óheimil.

Flutningsmenn laga nr. 46/1941 voru Páll Zóphóníasson og Steingrímur Steinþórsson. Þeir voru prýðilega menntaðir í búvísindum og áttu þegar þar var komið sögu langan og ágætan feril, sem kennarar og ráðunautar fyrir landbúnaðinn. Þá má geta þess að þá hafði Páll setið í skattanefndum landsins í áratug og þeir voru í forystu þjóðmála næstu tuttugu árin. Á þennan glæsta bakgrunn vantaði aðeins eitt til að þeir hefðu burði til að setja góð lög um landskipti. Þeir virðast ekki hafa borið skyn á meginreglur í eignarrétti.

Þeir voru ekki lögfræðingar og skorti lögfræðilega sýn. Ekki er hægt að álasa þeim harðlega. Þeir vissu ekki betur og höfðu ekki forsendur til þess. Sama er ekki hægt að ætla löggjafarsamkomunni. Ég trúi að þar hafi verið löglærðir menn og lögmenn. Hvar voru þeir, þegar lögin voru sett? Alþingi allt er ábyrgt fyrir lagasetningunni.

Raunar liggur málið dálítið öndvert við. Í gildi voru hin ágætustu lög um landskipti frá árinu 1927. Alþingi árið 1941 nam úr gildi ágæt lög og setti ólög. Það sem lagasmiðir Alþingis töldu til mestra þjóðþrifa árið 1927, meta sérfræðingar í búvísindum fjórtán árum síðar hina verstu agnúa. Aðrir þingmenn þögðu. Við framsögu frumvarpsins 12.5.1941 sagði Páll m.a.:

Landskiptalögin frá 1927 hafa að mörgu leyti þótt ónóg. Hafa þeir sérstaklega orðið varir við það, sem þurft hafa að framkvæma landskipti á grundvelli þeirra laga. Hin síðari ár hafa starfsmenn Búnaðarfélagsins, einkum jarðræktarráðunauturinn, ákaflega oft verið kvaddir til aðstoðar, þegar landskipti hafa átt sér stað. Þeir hafa því iðulega rekið sig á, hvað helst hefur vantað á lögin og hve erfitt hefur verið að skipta landi eftir þeim.“

Þingskjöl gefa frekari vísbendingar um ástæður lagasetningarinnar: Landskiptafarganið hefur verið erfitt. Þeim hefur leiðst að karlarnir á kotunum voru að kýta um hlutfall. Þeir benda á að ráðleysingjunum – bændum, sé fyrir bestu að vera hindraðir í að steypa sér út í dýr dómsmál. Því sé þjóðráð að binda sönnun í eignarrétti landskipta við þrjár prentaðar bækur. Það er einfaldara að skoða fáa kosti en marga. Frumvarpið styðja þeir með greinargerð:

Reynslan hefur sýnt, að gildandi landskiptalög eru ekki nógu víðtæk. Fyrir þær sakir verður oft mikill ágreiningur samfara landskiptum, sem stundum leiðir til málaferla, er veldur aðilum mikils kostnaðar. Þess eru og dæmi, að landskipti hafa ekki þótt framkvæmanleg vegna vanheimilda af laganna hálfu. Af þessum ástæðum þykir nauðsynlegt að setja ný lög um landskipti…

Og síðar:

„…Um 2. gr. Í gildandi lögum er raunverulega enginn skiptagrundvöllur ákveðinn. Venjulega fæst samkomulag um, að skipt sé eftir jarðamatinu frá 1861, en stundum verður ágreiningur um skiptagrundvöllinn, svo leita verður úrskurðar. Nú breytist fasteignamat jarða vegna umbóta, en það má ekki hafa áhrif á landskipti, og þykir því sjálfsagt að lögákveða skiptahlutföll jarða eftir jarðamatinu frá 1861, þar sem því verður við komið, enda verður ekki komizt nær hinu rétta á annan hátt.“

Fullyrðingin „…enda verður ekki komizt nær hinu rétta á annan hátt.“ er ekki rökstudd. Ég fullyrði að þessi orð eru fáránleg. Utan marka allrar skynsemi. Í 87% tilvika er hlutfall á milli jarða á sameignarjörðum (torfum) ekki það sama að fornu- og nýju mati. Ég get lagt fram töflu með nöfnum jarðartorfa, sem staðfestir orð mín. Hér er svart sagt hvítt.

Lögin hindra að hægt sé að nota þinglýsta löggerninga til sönnunar í eignarrétti landskipta. Í öðrum eignarrétti eru þinglýstir löggerningar afgerandi sönnunargögn. Síðar mun ég koma að því að Hæstiréttur notar endurteknu tilvísunina, sem rök fyrir sínum dómi.

Þá eru það einnig hrein öfugmæli í greinargerðinni að segja að fyrri lög séu „ekki nógu víðtæk“. Þau lög voru víðtæk; leyfðu öll sönnunargögn. Núgildandi lög eru sértæk. Þau leyfa aðeins þrjár prentaðar bækur til sönnunar, í eignarrétti landskipta og eru það firn mikil.

Raunar er andi laganna einsog fyrri lög um landskipti að meðtaldri Grágás og Jónsbók: Gæta ber jafnræðs aðila og að réttur sé ekki fyrir borð borinn. Að allir fái rétta hlutdeild í hvers kyns gæðum sameignar eftir eignarhlut. Allir eiga að fá hlut í kjörlendi og örreiti sameignar. Vatnsból telst til lífsþurfta. Ég bendi á að lögin eru á vef Alþingis.

Í 2. grein laganna eru fyrirmæli um skiptahlutfall eftirfarandi:

Skipta skal eftir jarðamati frá árinu 1861, þar sem því verður við komið.

Nú eru í því jarðamati tvær eða fleiri jarðir (hjáleigur) metnar í einu lagi til dýrleika, en aðgreint mat þeirra er að finna í jarðatali Johnsens frá 1847, og skal það þá notað.

Verði hvorugu þessu mati við komið, skal farið eftir fasteignabók frá 1922 eða síðari fasteignabókum, þó þannig, að ávallt verði notað hið elsta jarðamat, sem við verður komið.

Nú hafa gilt manna á meðal í 20 ár eða lengur önnur eignahlutföll en jarðamatsbækur gefa upp, og allir eigendur samþykkja, að þau eignahlutföll skuli haldast, og er þá heimilt að skipta eftir þeim, en sýslumaður skal tilkynna fasteignamatsnefnd þess konar skipti.“