Um stór mál og atburði er rétt að hafa stór orð. Hins vegar er tæpitunga læging á gagnrýnni orðræðu um vond verk.
Í skrifum mínum er ég fullyrðingasamur um afglöp Alþingis með setningu gildandi landskiptalaga og um afglöp Hæstaréttar Íslands í dómi í málinu nr. 610/2007. Þá hef ég sterkar grunsemdir um aðburðarleysi réttarins við að rétta lög í fleiri eignarréttarmálum landskipta.
Alþingi
Ég tel mig færa rök fyrir því að Alþingi hafi sýnt heimskulega hegðun með lagasetningunni. Með því er ég ekki að bregða þingmönnunum um heimsku. Ég er þvert á móti fullviss um að þeir ágætu synir Íslands, sem samþykktu lögin voru góðum gáfum gæddir. Ég er einnig sannfærður um að þeim gekk gott eitt til og annarlegir hagsmunir hafa ekki ráðið för. Lagasetningin var ekki gerð til að einn fengi tækifæri til að ræna annan. Lögin voru sjálfsagt sett í bestu meiningu. Þau áttu að auðvelda öllum lífið. Best væri fyrir alla að hafa fá skýr sönnunargögn í eignarrétti landskipta.
Þeim sem kjörnir eru til að hafa vit fyrir þjóð sinni “stoðar góð meining ekki par”. Gera þarf kröfu til ríkisvalds að aðgerðir og aðgerðarleysi ráðist af rökréttri hugsun.
Þingmenn virðast aldrei hafa spurt hvort rétt væri að banna sönnunargögn, sem þeir þó gerðu í reynd. Hvergi sjást þess merki að þeir hafi leitt hugann að misjöfnu hlutfalli á milli „leyfilegu sönnunargagnanna“.
Vissu þeir um misjafna hlutfallið? Fannst þeim eðlilegt að eignarhlutur í sameign gæti ýmist aukist eða hnigið frá einu skattmati til annars?
Áhöld eru um hvort lagasmiðirnir gerðu sér grein fyrir að í reynd bönnuðu þeir öll sönnunargögn, önnur en hinar þrjár prentuðu bækur.
Þeir voru svo yfirkomnir af þeim andþrengslum, sem þeir höfðu í erfiðum landskiptum af deilum eigenda um hlutfall, að ekkert komst að, annað en snöfurmannlegar reglur til að stoppa þrasarana.
Það er bágt að að ganga fyrir björg og afleiðingarnar dauði þess, sem það gerir. Forfeður okkar höfðu um þvílíkar gjörðir þau orð að viðkomandi „færi hrapalega“, svo sem þeim er hætt við er ekki njóta sjónar á för sinni. Þannig var sennilega háttað hjá þingmönnunum vorið 1941, sem ekki höfðu sýn á fyrirmæli fyrir skattmötin 1861 og 1922.
Hrapalegar gjörðir þingsins vorið 1941 eru skýranlegar, en ekki réttlætanlegar. Þingmenn lásu ekki þau skjöl, sem þeir byggðu ógöngurnar á og lögðu þjóðinni braut fram af hengjunni.
Hæstiréttur Íslands
Ekki liggur enn fyrir hve víðtækar afleiðingar lögin í eignarrétti landskipta hafa haft á umliðnum 76 árum. Rannsóknum á landskiptagerðum á landinu öllu er ólokið svo og rannsókn á dómum Hæstaréttar í eignarrétti landskipta.
Sá lagarammi sem Hæstarétti er settur um þessi mál er afmarkaður:
Almennt er Hæstarétti skylt að lúta ákvæði Stjórnarskrár Íslands um að dæma að lögum og engu öðru. Jafnframt ber dómstólnum að lúta ákvæðum hennar um að eignarrétturinn er friðhelgur. Víða er málum svo háttað að lögin frá 1941 brjóta í bága við 72. gr. Stjórnarskrárinnar. Með öðrum orðum ef úrskurðað er samkvæmt títtnefndum lögum eru einstaklingar sviptir eignum bótalaust, sem er andstætt lögum – Stjórnarskrá. Þær tvær greinar Stjórnaskrárinnar, sem hér skipta máli eru:
- 61. gr. Dómendur skulu í embættisverkum sínum fara einungis eftir lögunum…
- 72. gr. Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir…
Sé málum svo komið, sem hér eru til umfjöllunar, hefur dómstóll aðeins eina leið til að fara að lögum: Það gerir hann með því að virða 72. greinina og þá, jafnframt, hlítir hann ákvæði 61. greinarinnar um að dæma „einungis eftir lögunum“, en 72. greinin er vissulega partur laganna.
Magnús Thoroddsen fyrrverandi hæstaréttardómari skrifaði þ. 8. júlí 2010 grein í Morgunblaðið. Þar segir hann m.a.:
Samkvæmt 72. gr. Stjórnarskrár Lýðveldisins Íslands nr. 33, 17. júní 1944, með síðari breytingum, skulu dómendur í embættisverkum sínum fara einungis eftir lögunum. Með orðinu „lögunum“ er fyrst og fremst átt við sett lög, réttarvenjur og fordæmi. Þegar ekki er fyrir að fara slíkum lögum, þá verða dómarar að dæma samkvæmt „eðli máls“ eins og það kallast í lögfræðinni, en það merkir að dæma beri á þann veg, er dómara sýnist sannast og réttast og í sem beztu samræmi við grundvallarreglur réttarskipunarinnar. Í engilsaxneskum rétti kallast þessi lagatúlkun „Law of Equity“, sem er frekari lagaþróun frá „Common law“. Í skandinavískum rétti er þetta nefnt að dæma: „Efter Sagens Natur“.
Grein sinni líkur Magnús þannig:
Orðið dómgreind er fallegt orð í íslenzku máli og það er sjálflýsandi, eins og svo mörg orð á okkar fögru tungu. Vitanlega þarf dómari að kunna góð skil á íslenzkum rétti, bæði hvað varðar fræði og framkvæmd. En það er ekki nóg. Góður dómari verður að hafa góða dómgreind, vita og finna, hvað er sannast og réttast í hverju máli og „helzt að lögum“, og dæma samkvæmt því.
Í Hæstaréttarmálinu nr. 610/2007 liggur fyrir að rétturinn misfór með sönnunargögn í dómi sínum 2. október 2008. Um það verk má hafa stór orð. Enn um sinn, liggur ekki fyrir hvort rétturinn hefur gerst sekur um önnur slík afglöp í eignarrétti landskipta.