Íslensk sveitamennska er ekki hluti af reynsluheimi margra Íslendinga. Það liggur ekki í augum uppi að gildandi landskiptalög brjóti eignarréttarákvæði Stjórnarskrárinnar. Einfaldasta leiðin til að skilja eðli málsins er að lýsa hliðstæðu, sem hægt er að fella inn í umhverfi, sem er okkur flestum heimaland. Hliðstæðan er eftirfarandi:
Kafli I
Ari og Össur eiga í óskiptri sameign 100 hektara lands, að hálfu hvor, og hafa þeir báðir undir höndum þinglýsta löggerninga um eignarhaldið. Þeir byggja báðir íbúðarhús á landinu.
Báðir tryggja þeir nágrannar eignarhald með því að þinglýsa eignirnar hjá sýslumanni. Í bókum ríkiskerfisins eru bæði íbúðarhúsin skilgreind lögbýli.
Fasteignaskrá fær upplýsingar um eignir og eigendur. Þar er ákvarðað og skráð fasteignamatsverð á hvortveggja íbúðarhúsin. Landið, óskipt, er skilgreint á korti í einu lagi. Eignarlega skiptir stofnunin landinu hins vegar í tvennt og fá jöfnu helmingarnir hvor sitt fasteignanúmer, sem skilgreind eru eignir Ara og Össurar.
Að þessu gerðu getur sveitarfélagið sent þeim nágrönnum kröfu um greiðslu á fasteignagjöldum. Ari fær kröfu um að greiða fasteignaskatt af húseign og aðra kröfu um fasteignaskatt af sínu landnúmeri. Sama gildir um Össur. Landhlutdeild hvors um sig er þá metin 500.000 kr og íbúðarhúsin eru einnig metin jöfn að verðmæti.
Árum seinna, stækkar og endurbætir Ari sitt íbúðarhús og gerir að glæsihöll. Við stækkunina er fasteignamat á húsinu hækkað og þá orðið hærra, en á húsi Össurar.
Nú ákveða þeir nágrannar að skipta sameignarlandinu á milli sín og girða í tvennt. Í hlut hvors þeirra koma 50 hektarar, sem er í samræmi við Stjórnarskrárvarinn eignarrétt. Hlutdeild í landinu heldur hvor um sig samkvæmt þinglýstum löggerningi um eignarhald. Það má hverjum viti bornum manni vera ljóst að er réttdæmi.
Samkvæmt þúsund ára hefð og lögmæti í íslenskum eignarrétti eru hér sögulok – „köttur úti í mýri, úti er ævintýri“. Allt er eins og vera ber.
Við skulum hins vegar bæta við söguna í takt við það sem gerðist í jarðamálum á Íslandi frá 1849 til 1941:
Kafli II
Ríkisvaldið ákveður, eftir að Ari stækkaði og endurbætti sitt íbúðarhús að laga þurfi fasteignagjöld. Matsmenn eru sendir á staðinn, sem hafa fyrirmæli um að meta sérhverja eign til líklegs söluverðs.
Íbúðarhús Ara er metið 70 milljón króna að söluvirði og íbúð Össurar er metin að söluvirði 30 milljónir. Matsmenn meta eign þeirra nágranna í landi til skatts, í sama hlutfalli og húseignirnar. Glæsileg húseign er líkleg til að lyfta söluvirði landsins. Því er landshluti Ara metinn að söluvirði 7 milljónir króna og landshluti Össurar 3 milljónir króna.
Síðar, ákveða þeir nágrannar að skipta sameignarlandinu á milli sín og girða í tvennt. Ari krefst þess að fá 70 hektara af þeim 100, sem til skipta eru. Málið kemur til kasta landskiptanefndar og síðar dómstóla. Dómur fellur um að “leyfilegu sönnunargögnin” í eignarrétti landskipta sé skattmatið, sem gert var þegar land Ara var metið að söluvirði 7 milljónir króna og land Össurar 3 milljónir króna. Landinu er því næst skipt og fær Össur 30 hektara í sinn hlut.
Gerð ríkisvaldsins er brot á Stjórnarskrárvörðum eignarrétti. Hlutdeild í landinu ætti hvor um sig að halda samkvæmt þinglýstum löggerningi um eign á landinu. Hverjum viti bornum manni ætti að vera ljóst rangdæmi dómstólsins.
Í eignarrétti landskipta eru í gildi ólög, sem flytja eignir bótalaust af handahófi frá einum til annars.
- Fyrirmæli um skattmatið 1861 voru að hverja jörð ætti að meta til söluverðs.
- Fyrirmæli um skattmatið 1922 voru að hverja jörð ætti að meta til söluverðs.
- Skattmötin hafa enga tengingu við löggerninga, sem skilgreina eignarhlut í sameign jarðartorfa.
- Lög nr. 46/1941 mæla svo fyrir að fyrrgreind skattmöt séu tvö af þremur „leyfilegum sönnunargögnum“ í eignarrétti landskipta.
- Lögin og varðstaða Hæstaréttar um þau er brot á eignarréttarákvæðum Stjórnarskrár Íslands.
Sönnunargögnin um að hlutfall á milli jarða á torfum sé að handahófi eru óhrekjanleg og þú getur skoðað þau í töflunum: 60 torfur og 194 torfur