Hér eru tvær klippur úr málsskjölum. Klippurnar sýna að Ytri-Sólheimar með Hjáleigunni eru 100 H í jarðabókinni 1805. Johnsen vitnar rangt í heimildina og Hæstiréttur notar rangfærsluna til að byggja dóm sinn á. Í Kastljósi 5.12.2017 kom fram að Markús Sigurbjörnsson virðist ekki hafa haft tíma til að lesa málsgögnin vegna annarra verka.Klippur úr Jarðabók 1805, Eignarpartar 99 H 120 al. eða 100 H
Þá koma dómsforsendur Hæstaréttar Íslands þ. 2. október 2008:
Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. landskiptalaga gildir sú aðalregla að skipta skuli sameign, sem lögin taka til eftir ákvæðum 1. gr. þeirra, eftir jarðamati frá 1861, þar sem því verður við komið, en séu tvær eða fleiri jarðir metnar þar í einu lagi og aðgreint mat sé að finna í jarðatali Johnsens frá 1847 skuli það lagt til grundvallar, sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna. Að þessum kostum frágengnum verði lagt til grundvallar mat samkvæmt fasteignabók frá 1922 eða síðari fasteignabókum, en þó þannig að alltaf verði notað elsta matið, sem við verður komið, sbr. 3. mgr. sömu lagagreinar. Með 4. mgr. hennar er að auki heimilað að leggja til grundvallar önnur eignarhlutföll en leiðir af framangreindu ef þau hafa gilt manna á meðal í minnst 20 ár og allir eigendur samþykkja að þau haldist. Af lögskýringargögnum er ljóst að þessi fyrirmæli voru sett til að leggja grunn að eignarhlutföllum við landskipti og þætti „sjálfsagt að lögákveða skiptahlutföll jarða eftir jarðamatinu frá 1861, þar sem því verður við komið, enda verður ekki komizt nær hinu rétta á annan hátt“, svo sem sagði í athugasemdum við frumvarp til landskiptalaga. Ekki verður annað ráðið en að löggjafinn hafi með þessu talið áreiðanleika eldri heimilda en þeirra, sem um getur í 2. gr. landskiptalaga, orka svo tvímælis að ekki væri fært að styðjast við þær í þessum efnum. Í máli þessu háttar svo til að eldri heimildir um dýrleika Ytri-Sólheimajarða samanlagðra sýnast misvísandi, enda var gerð sú athugasemd um þetta efni í áðurnefndu jarðatali frá 1847 að „1806 er jörð þessi (hálf bænda eign og hálf eign kirkjunnar) talin aðeins 100 h., og hjáleigan sér 7 / h.; sýslumaður þar á móti telur alla jörðina 100 h., en í jarðabókunum (enum eldri, 1760) er hún sögð 120 / h.“ Verður því ekki annað séð en að þær forsendur, sem ákvæði 2. gr. landskiptalaga voru reist á samkvæmt framansögðu, eigi meðal annars við óskipt land Ytri-Sólheimajarða. Með því að áfrýjendur hafa ekki sýnt fram á að skilyrði séu til að beita fyrirmælum 4. mgr. 2. gr. landskiptalaga við úrlausn málsins verður að gerðum þessum athugasemdum hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna hans. Áfrýjendum verður gert að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dóminn í heild er hægt að sjá á vef Hæstaréttar Íslands